Róttækar hugmyndir ráðamanna Atlantshafsbandalagsins um að veita arftaka Sovétríkjanna aukinn aðgang að ákvörðunum bandalagsins og neitunarvald á sumum sviðum eru ekki traustvekjandi. Þær endurvekja efasemdir um, að allt sé með felldu í þessu aldna bandalagi.
Atlantshafsbandalagið var stofnað fyrir rúmlega hálfri öld til að hamla gegn útþensluvilja Sovétríkjanna og tilraunum þeirra til að afla sér neitunarvalds um málefni ríkja vestan járntjaldsins. Þetta tókst, því að Sovétríkin hrundu um síðir og leifarnar urðu að Rússlandi.
Nú á að færa Rússlandi neitunarvald á silfurbakka, af því að ráðamenn Vesturlanda hafa skyndilega uppgötvað, að varnir gegn hryðjuverkamönnum hins íslamska menningarheims séu kjörið verkefni til að lífga við afskekkt bandalag, sem hefur lokið ævistarfi sínu.
Atlantshafsbandalagið er orðið afskekkt í heiminum. Bandaríkjastjórn hleypir hvorki því né ríkjum þess að hernaðarlegum ákvörðunum í Afganistan. Bretar reyndu að senda hundrað hermenn þangað, en þeir kúra þar einangraðir, umkringdir Norðurbandalaginu.
Af slíkum ástæðum hafa evrópskir ráðamenn margir hverjir tekið vel í hugmyndir Bandaríkjanna og Bretlands um aukinn aðgang Rússlands að ákvörðunum Atlantshafsbandalagsins. Þeir telja sig þannig geta virkjað Bandaríkin betur til gagnvirkra samráða í hernaðarefnum.
Þessir ráðamenn, þar á meðal Íslands, misskilja heimssýn bandarískra stjórnvalda. Þau vilja gjarna hafa svæðisbundin bandalög á borð við Nató sem eins konar leppa í hverjum heimshluta fyrir sig, en taka þar fyrir utan ekkert hernaðarlegt mark á bandamönnum sínum.
Bandaríkin geta notað Atlantshafsbandalagið til að halda niðri ófriði á Balkanskaga, af því að hann er í Evrópu. Þau nota á sama hátt annars konar bandalag við Pakistan, Úsbekistan og Norðurbandalagið í Afganistan til að ná sér niðri á Osama bin Laden og Talibönum.
Flest grófustu hryðjuverkaríki heimsins hafa séð sér hag í að flaðra upp um Bandaríkin í kjölfar árásarinnar á World Trade Center og Pentagon. Þau vilja fá vestrænan gæðastimpil á ofsóknir sínar gegn minnihlutahópum í landinu. Rússland er bezta dæmið um þetta.
Þar búa tugir minnihlutaþjóða, sem eru meira eða minna kúgaðar, þar á meðal Tsjetsjenar. Slíkar þjóðir nota rétt hinna kúguðu til andófs og eru þá uppnefndar sem hryðjuverkamenn. Rússland vill, að Vesturlönd hætti að amast við ofbeldi gegn slíkum þjóðum.
Þegar vestrænir ráðamenn ráðslaga um aðgerðir gegn hryðjuverkum, er ekki skortur sjálfboðaliða af hálfu ríkja, sem stunda ríkisrekin hryðjuverk gegn fólki, svo sem Rússlandi og Kína, Ísrael og Írak, Pakistan og Úsbekistan. Við skulum draga einlægni slíkra ríkja í efa.
Í Atlantshafsbandalaginu skilja menn ekki, að heimsmyndin hefur breytzt. Bandaríkin þurfa ekki lengur á Evrópu að halda til að hamla gegn Sovétríkjunum, sem eru ekki lengur til. Bandaríkin eru ein eftir sem heimsveldi og spyrja hvorki kóng né prest um neitt.
Aðkoma Rússlands að Atlantshafsbandalaginu bætir þessa stöðu ekki. Hún breytir því ekki, að bandalagið hefur breytzt úr mikilvægum bandamanni í lítilvægan lepp, sem hefur eigrað um á barmi atvinnuleysis, síðan stóri óvinurinn í austri hrundi inn í sjálfan sig.
Þegar mál eru komin í þá stöðu að arftaki óvinarins er farinn að segja “njet” í málefnum Vestur-Evrópu, er kominn tími til að segja pass og leggja Nató niður.
Jónas Kristjánsson
DV