Nýleg bandarísk rannsókn bendir til, að lyfjafyrirtæki verji ekki nema 14% af tekjum sínum til rannsókna, sömu upphæð og þau verja til markaðssetningar lyfja. Þessar niðurstöður kollvarpa vörn lyfjabransans og talsmanna hans fyrir háu og hækkandi lyfjaverði í heiminum.
Af fullyrðingum vina lyfjafyrirtækjanna hefði mátt ætla, að meirihluti tekna þeirra færi í rannsóknir og þess vegna væri nánast ósiðlegt að gagnrýna þau. Staðreyndin er hins vegar, að rannsóknir skipa ekki hærri sess hjá þessum fyrirtækjum en söluáróður þeirra.
Markaðssetning er miklu hærra hlutfall af tekjum lyfjabransans en algengt er í verzlunargreinum harðrar samkeppni. Til samanburðar má nefna, að bandarísk tóbaksfyrirtæki og stórmarkaðir verja 4% tekna sinna í markaðssetningu. Lyf eru seld af óvenjulegri hörku.
Hér á landi hefur þetta ástand réttilega verið gagnrýnt á pólitískum vettvangi, en samtök verzlunarinnar gripið til varna á hæpnum forsendum. Sérstaklega hefur verið gagnrýnt, að lyfjafyrirtæki greiða ferðakostnað lækna, ráðstefnukostnað og tímaritaútgáfu þeirra.
Erlendis hafa miklu alvarlegri hlutir komið í ljós. Ritstjórar ýmissa þekktustu vísindatímarita læknisfræðinnar hafa tekið saman höndum um að verjast ósæmilegri framgöngu lyfjafyrirtækja, sem hafa meira eða minna ráðið niðurstöðum vísindaritgerða þekktra lækna.
Tímaritin eru The Lancet, The New England Journal of Medicine, The Annals of Internal Medicine og Journal of the American Medical Association. Þau hafa tekið saman höndum um að setja mun strangari reglur um birtingu ritgerða, sem kostaðar eru af lyfjabransanum.
Komið hefur í ljós, að lyfjafyrirtæki hafa reynt að beina rannsóknum, sem þau hafa fjármagnað, í ákveðna farvegi og að hindra birtingu niðurstaðna, sem þeim eru ekki þóknanlegar. Svo langt var stundum gengið, að “höfundar” ritgerðanna höfðu ekki einu sinni séð þær sjálfir!
Einnig hefur komið í ljós, að höfundar niðurstaðna, sem voru lyfjabransanum ekki þóknanlegar, voru ofsóttir í stofnunum, sem þeir störfuðu við, af því að þær nutu fjárhagslegs stuðnings lyfjafyrirtækja. Veruleikinn er eins og í nýjasta reyfaranum eftir John le Carré.
Sérstaklega er lyfjafyrirtækjunum í nöp við, að birtar séu rannsóknir, sem sýna aukaverkanir lyfja. Frægt er dæmið um OxyContin, sem hefur átt þátt í dauða 120 manna. Það varð til þess, að New York Times og Washington Post fóru að rannsaka lyfjafyrirtækin.
Niðurstaða dagblaðanna var, að lyfjaframleiðendur greiddu heilu ráðstefnurnar fyrir lækna, allan ferðakostnað þeirra, borguðu þeim fyrir að kynna lyfið fyrir starfsfélögum, mútuðu þeim til að ávísa því og fengu stjórnvöld til að beita volaðan þriðja heiminn þrýstingi.
Við sjáum hluta af þessum þrýstingi hér á landi, til dæmis í áherzlunni á notkun geðbreytilyfja, sem í eðli sínu eru fíkniefni. Þannig eru Íslendingar látnir gleypa 10.000 Prozak-töflur á hverjum morgni og þannig er Rítalíni troðið ofan í óþæg börn í skólum landsins.
Reynslan sýnir, að ekki er óhætt að treysta ráðleggingum lækna um lyfjanotkun. Engin leið er að átta sig á, hvort það eru hollráð eða ekki. Þótt læknir sjálfur hafi ekki beinna hagsmuna að gæta, kann hann að vera undir sefjunaráhrifum af völdum hagsmunaaðila.
Afleitt er, að læknar skuli hafa teflt málum í þá stöðu, að ekki skuli vera hægt að treysta ráðum þeirra. Samtökum þeirra ber að efna til slíks trausts að nýju.
Jónas Kristjánsson
DV