Treystu mér

Greinar

Í sömu viku og hagsmunaaðilar verzlunar voru að lýsa dálæti sínu á siðareglum, sem þeir hafa sett um samskipti sín, úrskurðaði samkeppnisráð þessa aðila í háar sektir fyrir brot á lögum um slík samskipti. Þetta segir okkur, að siðareglurnar séu ímynd en ekki innihald.

Hvenær sem voldugir aðilar í þjóðfélaginu eru sakaðir um pukur og leynimakk, setja þeir upp heilagra manna vandlætingarsvip og segja: Treystu mér. Gildir þá einu, hvort rætt er um leynilegar fjárreiður stjórnmálaflokka eða leynikostnað ríkisins vegna einkavinavæðingar.

Hagsmunaaðilar peninga og valda reyna yfirleitt að andæfa, þegar aukið er gegnsæi í viðskiptum og stjórnmálum. Þeir vilja heldur, að almenningur sýni valdastofnunum þjóðfélagsins blint traust. En reynslan sýnir því miður, að ekki eru forsendur fyrir því.

Gegnsæið er ein af meginstoðum vestræns lýðræðis, enda greinilega betri en blindan sem forsenda fyrir trausti. Ef spilin liggja á borðinu, er tilgangslítið að reyna að hafa falda ása uppi í erminni. Traustið skapast þá af opnum leikreglum, sem eru öllum sýnilegar.

Fyrir ári voru Samkeppnisráði gefnar tennur. Ráðið fékk heimild til að beita háum sektum við brotum á samkeppnislögum. Núna er ráðið byrjað að beita hinum nýfengnu tönnum gegn ólöglegu samráði um síma- og gagnaflutning og um dreifingu á geisladiskum.

Sektirnar voru þó smámunir í samanburði við yfirhalninguna, sem Landssíminn fékk í texta úrskurðarins. Þar stóð beinlínis, að ráðamenn fyrirtækisins hafi margsinnis misnotað markaðsráðandi stöðu þess, sem þýðir á lögreglumáli, að þeir hafi sýnt eindreginn brotavilja.

Endurtekin brot Landssímans á samkeppnislögum gefa skýra mynd af íslenzkri einkavæðingu, sem byrjaði með bifreiðaeftirlitinu og endaði með símanum. Hún felur í sér, að völdum aðilum er afhent einokun, sem breytist í hlutafélagsform, en heldur áfram að vera einokun.

Íslenzk stjórnvöld hafa gegn vilja sínum neyðst til að þýða evrópskar reglugerðir um gegnsæi og samkeppni og gera að íslenzkum lögum. Þannig hafa verið stigin skref til að koma böndum á fjármálamarkaðinn og um samskipti kaupenda og seljenda innan verzlunarinnar.

Spurningin er bara, hvort dugir að beita síbrotamenn háum sektum. Er ekki meira samræmi í að dæma slíka menn á Litla-Hraun eins og síbrotamenn á öðrum sviðum afbrota? Að minnsta kosti virðast sumir ráðamenn Landssímans vera hinir dreissugustu eftir dóminn.

Færst hefur í vöxt hjá voldugum mönnum hér heima sem erlendis að bera höfuðið hátt og reyna með markaðssetningu að búa til ímynd, sem er óháð veruleikanum og oft fjarri honum, jafnvel andstæð. Reynt er að fela veruleikann og markaðssetja ímyndina sem ígildi hans.

Þannig fjölyrða ráðamenn lyfjarisa heimsins um, að gífurlegur kostnaður fari í að þróa ný lyf, þegar sannleikurinn er þvert á móti sá, að gífurlegur kostnaður fer í að markaðssetja ný lyf með góðu og illu, þar á meðal með mútum og fölsuðum niðurstöðum rannsókna.

Venjulegir menn hafa sem neytendur og kjósendur litla þekkingu til að sjá bolabrögðin, sem þeir eru beittir af aðilunum, sem valdið hafa og peningana. Með samevrópskum reglum um aukið gegnsæi í þjóðfélaginu er verið að andæfa gegn sífellt betri vopnum hinna sterku.

Réttur Samkeppnisráðs til að beita sektum gegn samkeppnishömlum risanna er lítið, en brýnt skref í baráttunni við þá, sem brosa ljúft og segja: Treystu mér.

Jónas Kristjánsson

DV