Argentína er dæmi um, að frjálsar kosningar nægja ekki til að tryggja landi almenna hagsæld. Svo hart hafa sigurvegarar frjálsra kosninga leikið landið, allt frá Júan Perón til Carlos Menem, að það rambar nú á barmi gjaldþrots, síðan þreyttir alþjóðabankar lokuðu á það.
Á Vesturlöndum hefur mótazt ný skilgreining á lýðræði, sem stundum er kallað vestrænt lýðræði. Það felur í sér miklu meira en frjálsar kosningar. Þær geta einar út af fyrir sig verið hættulegar, ef ekki fylgja þeim aðrir mikilvægir þættir, sem virkja og treysta lýðræðið.
Adolf Hitler fékk stuðning í kosningum, ennfremur Sulfikar Ali Bhutto í Pakistan, Júan Luis Chaves í Venezuela og nú síðast Silvio Berlusconi á Ítalíu. Saga síðustu aldar var stanzlaus harmsaga afleiðinga frjálsra kosninga í ríkjum, þar sem jarðveginn skorti.
Vestrænt lýðræði byggist á traustri stöðu laga og réttar í þjóðskipulaginu, langri röð mannréttinda að hætti sáttmála Sameinuðu þjóðanna, dreifingu valdsins á marga staði, gegnsæi í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum, og aðskilnaði ríkisvalds og trúarbragða.
Berlusconi hefur valdið og mun valda Ítalíu miklum hremmingum. Hann hefur til dæmis beitt neitunarvaldi Ítalíu í Evrópusambandinu til að hindra innreið samevrópskra handtökuheimilda, af því að þær eiga að ná til peningaþvættis og höggva nærri hagsmunum hans.
Evrópa mun fljótlega ná sínum handtökuheimildum á annan hátt og Ítalía mun um síðir losna við Berlusconi. Með aðildinni að Evrópu hefur Ítalía náð aðild að vestrænu lýðræði í ofangreindum skilningi og mun lifa af, þótt kjósendur hafi brugðizt í frjálsum kosningum.
Einn máttarstólpinn getur bilað í vestrænu lýðræðisríki, en hinir stólparnir halda kerfinu uppi, unz gert hefur verið við bilaða stólpann. Þetta gerir þjóðskipulagið einstaklega öruggt í sessi og vel fallið til traustra samskipta, þar á meðal til arðbærra viðskipta.
Skortur á aðskilnaði ríkisvalds og trúarbragða er ein helzta forsenda þess, að arftakaríki Múhameðs spámanns eiga erfitt uppdráttar í nútímanum. Tyrkland er aleitt þeirra á jaðri aðildar að vestrænu lýðræði og kostum þess, einmitt vegna markviss aðskilnaðar ríkis og trúar.
Indland, Rússland og gervöll rómanska Ameríka eru einnig nálægt skilgreiningu vestræns lýðræðis. Helzt er það spillingin, sem stafar af miðstýringu, litlu gegnsæi í stjórnsýslu og tæpri stöðu laga og réttar, sem hindrar þessi lönd í að höndla gæfu vestræns lýðræðis.
Vestræn lýðræðisríki hafa hag af útbreiðslu hugmyndafræði sinnar. Sigurför hennar fækkar kostnaðarsömum styrjöldum, eflir reisn alþýðunnar, magnar almenna hagsæld og eykur traust í viðskiptum. Samt eru ekki til nein sérstök samtök vestrænna ríkja um þessa þróun.
Tímabært er orðið að stofna slík samtök vestrænna lýðræðisríkja um að efla lög og rétt í heiminum, gera sáttmála Sameinuðu þjóðanna virkan á fleiri stöðum, dreifa valdi og auka gegnsæi í hverju þjóðfélagi fyrir sig, svo og að losa veraldlega valdið úr viðjum trúarbragða.
Með því að taka í félagið ýmis ríki, sem eru nálægt því að fylla skilyrði vestræns lýðræðis og vilja komast alla leið, er léttara að veita þeim peningalegan, siðferðilegan og pólitískan stuðning og gefa þeim betri aðgang en öðrum að viðskiptum við auðríki Vesturlanda.
Þannig má smám saman stækka svigrúm vestræns lýðræðis, friðar og hagsældar. Og þannig má minnka svigrúm hörmunga, styrjalda og hryðjuverka.
Jónas Kristjánsson
DV