Snjór og kuldi seldur

Greinar

Sumt er svo einfalt og rökrétt, að engum dettur í hug að framkvæma það. Þegar svo einum dettur það í hug, ljúka allir upp einum munni og segja: Auðvitað! Þannig virkar snilligáfan. Allir geta verið vitrir eftir á, en það er aðeins einn, sem er vitur, þegar byrjað er á nýjung.

Arngrímur Hermannsson hefur stofnað fyrirtæki um snjó og storm, volk og kulda. Hann þarf ekki að gá til sólar á hverjum morgni og spyrja: Skyldu ferðamenn mínir koma í dag? Hann er ekki að selja sól og sumaryl, heldur vanstillta náttúru Íslands eins og hún er.

Flestir erlendir ferðamenn taka þátt í ferðum Ævintýraferða, af því að þeir hafa aldrei kynnst snjó. Aðrir reyndari koma til að öðlast lífsreynslu í vetrarhrakningum. Hvorir tveggja verja sumarleyfinu til að prófa eitthvað öðruvísi. Og það getur Arngrímur boðið þeim.

Hann byggir á mikilvægri reynslu íslenzkra björgunarsveita, þar sem þróast hefur tækni, sem er einstök fyrir Ísland. Það eru vel búnir ofurjeppar á víðáttumiklum hjólbörðum, sem komast hvert á land sem er, á hvaða árstíma sem er. Ísland er orðið þekkt fyrir þessa ofurjeppa.

Vettvangur ferðanna breytist eftir árstímum. Þegar snjóa leysir, færast þær upp á sjálfa jöklana, þar sem nógur er snjórinn árið um kring. Þannig eru Ævintýraferðir heils árs rekstur, sem getur deilt miklum tækjakostnaði niður á fleiri daga ársins en aðrir í ferðaþjónustu.

Þetta er mikilvægt fyrir aðra. Hótel og veitingahús hafa risið til að þjóna skammvinnum ferðamannatíma og hafa verið rekin með tapi á öðrum tímum ársins. Nú streyma ferðamenn á vegum Arngríms inn á þessa staði árið um kring og gerbreyta fjárhagsforsendum ferðaþjónustu.

Arngrímur var á forsíðu DV á laugardaginn og hlaut frumkvöðlaverðlaun blaðsins, Stöðvar 2 og Viðskiptablaðsins á þriðjudaginn. Í viðtalinu segir hann ferðaþjónusta verða atvinnugrein framtíðarinnar á Íslandi. Enda er hún í þann mund að verða heils árs grein.

Arngrímur efast um stórvirkjanir á hálendinu og sambýli þeirra við ferðaþjónustu. Hann telur orkuver verða orðin safngripir eftir hundrað ár, þegar ferðaþjónusta og landvarzla verður höfuðatvinnugrein okkar. Hann nefnir Villinganesvirkjun sem dæmi um stórspjöll.

Hann segir menn ekki virðast reikna niðurrif og skemmdir á náttúrunni, þegar þeir reikna hagkvæmni orkuvera. Hann segir, að hér á landi séu menn alveg staðnaðir í að hugsa um vatnsföll og uppistöðulón, og bendir á, að betra sé að snúa sér að jarðhitanum.

Kominn er tími til, að stjórnvöld landsins fari að átta sig á auðlind ósnortinna víðerna landsins, þar sem hvergi blettar hús, stífla eða raflína. Framtak Ævintýraferða vísar veginn til framtíðarinnar, þegar óspjölluð náttúra landsins, snjór og veðurfar verða mesta auðlindin.

Þótt meirihluti ferðamanna heimsins vilji halda áfram að sóla sig á Kanaríeyjum heimsins, fjölgar sífellt þeim, sem vilja verja sumarleyfinu á annan hátt en að liggja í leti. Þeir vilja reyna eitthvað nýtt, gera eitthvað spennandi, leika sér og öðlast lífsreynslu.

Þessi geiri er þegar orðinn svo stór, að markaðurinn getur frá íslenzku sjónarmiði talizt takmarkalaus. Hann á eftir að stækka enn frekar, studdur frásögnum þeirra, sem þegar hafa tekið þátt í ævintýraferðunum. Nú þegar þetta ferli er byrjað, sjáum við hvað það er augljóst.

“Ofurjeppar og íslenzk náttúra er vara, sem er hvergi annars staðar í heiminum og á þessu sviði keppir enginn við okkur,” segir Arngrímur í viðtalinu við DV.

Jónas Kristjánsson

DV