Aðgerðaleysið er einn helzti kostur ríkisstjórnarinnar. Hún lætur ekki taka sig á taugum, þegar hagsmunaaðilar heimta ýmiss konar aðgerðir, enda er síður en svo sjálfgefið, að handafl að ofan leysi vanda og verkefni líðandi stundar betur en sjálfvirku öflin í þjóðfélaginu.
Rólyndið hefur enn einu sinni leitt til svokallaðrar þjóðarsáttar, sem felst í, að samtök vinnumarkaðarins taka af skarið og gera ríkisstjórninni tilboð, sem hún getur ekki hafnað. Þannig hefur hluti ákvörðunarvalds í stjórnkerfinu dreifzt út til samtaka vinnumarkaðarins.
Orðið þjóðarsátt gefur ekki rétta mynd af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Alþýðusambandið hefur ákveðið að gæta ekki fleiri hagsmuna í þjóðfélaginu en launafólks og neytenda, sem fá lækkað grænmetisverð. Sjúklingar, öryrkjar, gamalmenni og nemendur eru utan sáttar.
Ef slíkir minni máttar aðilar væru teknir inn í samkrull hagsmunaaðila um stjórnarstefnuna, mætti segja, að hér ríkti sænskt friðarástand, þar sem menn leysa sérhvern samfélagsvanda með því að halda nógu marga málefnalega fundi og láta aldrei skerast í odda.
Svo friðsælt er þjóðfélagið ekki orðið, en svigrúm fyrir ágreining í stjórnmálum hefur þó minnkað töluvert við sameiginlega yfirtöku samtaka vinnumarkaðarins á mikilvægum þáttum landstjórnarinnar. Enda skipa stjórnmál minni sess í hugum almennings en áður fyrr.
Helzt eru það Evrópa og vaffin fjögur, sem valda ágreiningi, vextir og verðbólga, virkjanir og veiðigjald. Um ekkert þeirra ríkir nein sátt í þjóðfélaginu og verður tæpast á næstu misserum. Þess vegna er ótímabært að spá, að hnignun stjórnmálanna leiði til andláts þeirra.
Því miður er aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ekki nógu markvisst og sízt nógu markaðsvænt. Það hvílir ekki nema stundum á því grundvallarsjónarmiði, að stjórnvöld eigi að láta þá þætti eiga sig, sem markaðurinn ræður betur við. Í ýmsum tilvikum ræður handafl að ofan.
Vafasamt er, að frjálsi markaðurinn hefði áhuga á að ráðast í stóriðju á Austurlandi, ef ríkið gengi ekki fram fyrir skjöldu með ýmiss konar handafli, tilboðum um niðurgreitt orkuverð, ókeypis ríkisábyrgð, niðurgreitt mengunargjald og ókeypis spjöll á náttúruverðmætum.
Með annarri hendinni er ríkisvaldið að losa sig við ýmsa innviði á borð við símann, póstinn og ríkisbankana. Með hinni hendinni er það að auka hlutafé sitt í hallærislegu járnblendisveri í Hvalfirði, sem nýtur niðurgreiddrar orku, en hefur samt aldrei gefið neitt af sér.
Enn er landbúnaði og sjávarútvegi stjórnað með flóknu kerfi ríkisafskipta, sem annars vegar er ætlað að vernda ríkjandi hagsmuni og hins vegar að tryggja búsetu á mörgum stöðum. Í raun virkar þetta handafl sem hemill á vöxt og viðgang allra hinna atvinnuveganna.
Þótt erfitt sé að lesa rökrétt samhengi úr fjölbreyttum aðgerðum og ekki síður fjölbreyttu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, má þó segja, að rauði þráðurinn sé verndun ríkjandi hagsmuna og friður á vinnumarkaði. Hvort tveggja hefur ríkisstjórninni tekizt bærilega.
Fólk verður þó að taka eftir, að svokölluð þjóðarsátt í fyrradag var aðeins frestun á vandamáli um hálft ár og stendur þar að auki ekki undir nafni, því að öllum vandamálum velferðar var haldið utan við sáttina, svo sem rækilega mun heyrast, þegar líður á veturinn.
Það mun svo bæta stöðu aðgerðalítillar ríkisstjórnar, ef þjóðarsáttin leiðir til, að verðbólga lækkar hratt á næstu mánuðum og vextir lækka að sama skapi.
Jónas Kristjánsson
DV