Plástrar og pillur

Greinar

Ekki getur gengið til lengdar, að kostnaður ríkisins af heilsufari þjóðarinnar aukist um 11 milljarða króna á ári. Ekki getur gengið til lengdar, að lyfjakostnaður Íslendinga aukist um 11­14% á hverju ári, ár eftir ár. Þetta getur aðeins endað með hruni sjúkrakerfisins.

Bilunareinkenni velferðarinnar eru farin að koma í ljós. Ríkið hefur á undanförnum árum smám saman verið að auka hlut sjúklinga í kostnaði. Samkvæmt mælingum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja nam þessi hækkun meira en 200% á tímabilinu frá 1990 til 2001.

Sprenging varð síðan á þessu sviði í fjárlögum fyrir næsta ár. Þar eru miklar hækkanir á kostnaði sjúklinga, í einu tilviki 469% hækkun. Með nýju fjárlagaári erum við komin á hraðferð út úr velferðarkerfi heilbrigðismála yfir í það kerfi, að hver sé sjálfum sér næstur.

Aukinn hraði á hækkun hlutdeildar sjúklinga nægir samt ekki til að láta enda ná saman. Biðlistar sjúkrastofnana hafa á einu ári lengzt úr 6266 sjúklingum í 6384. Aukningin er mest í bið eftir endurhæfingu, sem virðist hreinlega vera að hrynja í velferðarkerfinu.

Innan skamms verður komið hér tvöfalt kerfi sjúkratrygginga, þar sem skynsamt og vel stætt fólk kýs að kaupa sér aukatryggingu á frjálsum markaði fyrir hlutdeild sinni í kostnaði heilbrigðisþjónustunnar. Stéttaskipting Íslendinga mun aukast af þessum sökum.

Samkvæmt skoðanakönnunum vilja menn hafa áfram samtryggingarkerfi á þessu sviði og greiða fyrir það með sköttum. Þessi vilji endurspeglast ekki í stjórnmálunum, því að mikill meirihluti kjósenda styður stjórnmálaflokka, sem eru að minnka hlutdeild samtryggingarinnar.

Það dugar heldur ekki að gefast upp fyrir hækkun sjúkrakostnaðar og játast undir hærri skatta til að greiða hann. Þjóðfélagið verður að ná tökum á sérverðbólgu heilbrigðisgeirans, svo að hlutur hans í þjóðarútgjöldum haldist óbreyttur, þrátt fyrir verndun velferðar.

Grófasta dæmið um sérverðbólguna er lyfjakostnaðurinn, sem eykst um 11­14% á hverju einasta ári. Það endar bara með því, að allar þjóðartekjurnar fara í pilluát. Enginn getur haldið fram með neinni sanngirni, að gagnið af lyfjunum sé að aukast um þessi 11­14% á ári.

Lyfjanefnd hefur ekki staðið sig, enda virðist hún sætta sig við þá viðmiðun, að lyfjaverð sé 15% hærra hér á landi en á Norðurlöndunum, þar sem lyf eru dýr. Beita þarf meiri hörku í útboðum og neita blákalt að taka inn merkjavöru í lyfjum, sem ekki fæst á útsöluverði.

Bezta ráðið til þess er að gera bandalag við önnur velferðarríki um sameiginleg innkaup á merkjavöru í lyfjum, svo að beita megi freistingu magninnkaupa til að fá lyfjaiðnaðinn til að lækka verð. Engin merki sjást um, að Norðurlönd séu farin að feta inn á þessa braut.

Fjölþjóðleg útboð á lyfjum eru aðeins eitt dæmi af aðgerðum, sem hægt er að beita til að halda sjúkrakostnaði þjóðarinnar innan fastákveðins hluta af þjóðarútgjöldum og til að halda jafnframt óbreyttri velferð, þar sem allir fá fulla þjónustu án tillits til greiðslugetu sinnar.

Úttekt DV í gær á auknum sjúkrakostnaði og aukinni hlutdeild sjúklinga gaf innsýn í kerfi, sem hefur siðferðilega gefizt upp gagnvart fyrirsjáanlegu hruni velferðar, skortir þrótt til að taka róttækt á vandanum og fer í staðinn undan í flæmingi með plástra og pillur á lofti.

Miðað við morð fjár heilbrigðisgeirans er átakanlegt, hversu lítið fé fer í fyrirbyggjandi aðgerðir, sem spara fleira fólki þrautagöngur á náðir sjúkrastofnana.

Jónas Kristjánsson

DV