Kárahnjúkavirkjun er jólagjöf ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar í ár. Umhverfisráðherra hefur hnekkt úrskurði Skipulagsstofnunar ríkisins, sem lagðist gegn virkjuninni. Niðurstaða ráðherrans verður eftir áramót lögð fyrir Alþingi, þar sem hún verður lögfest.
Orkuverið og álverið, sem reist verða austur á landi munu hafa mikil áhrif í þjóðfélaginu og náttúrunni. Flestir landsmenn eiga að hafa hugmynd um náttúruspjöllin, en minna hefur verið rætt um efnahagsspjöllin af völdum þessarar jólagjafar ríkisstjórnarinnar.
Álverið á Reyðarfirði verður ólíkt fyrri álverum í Straumsvík og á Grundartanga, sem erlendir aðilar eiga að fullu. Nýja álverið verður að mestu leyti reist fyrir innlent fé, því að Norsk Hydro vill bara eiga fjórðung fyrir að fá einokun á hráefnum og afurðum versins.
Álver eru dýrasta aðferð í heiminum við að búa til vinnustaði. Innlenda fjármagnið í álverið á Reyðarfirði verður ekki notað til annarra verkefna, sem gefa miklu fleiri atvinnutækifæri á betri lífskjörum. Álverið sogar til sín fé, sem annars færi til arðbærra nútímastarfa.
Raforkuverð Austurlandsvirkjunar til Reyðaráls verður leyndarmál, af því að það verður lágt. Við þekkjum vandann frá þeirri stóriðju, sem fyrir er í landinu, einkum járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, sem reist var að frumkvæði ríkisins og fær nánast gefins orku.
Vegna góðra skilyrða til virkjunar vatnsafls og gufu hér á landi ætti rafmagn að vera tiltölulega ódýrt. En niðurgreiðsla rafmagns til stóriðju veldur því, að rafmagn er tiltölulega dýrt hér á landi til annars iðnaðar og til almennings, sem borga þannig daglegan stóriðjuskatt.
Dæmið fyrir austan er svo erfitt, að ríkið mun telja sig knúið til að hlaupa undir bagga til að liðka fyrir fjármálum orkuvers og álvers á beinan og óbeinan hátt. Skattgreiðendur munu þurfa að borga brúsann af tilraunum ríkisins til að láta fjárhagsdæmið ganga upp.
Ríkið mun veita verðmætar ríkisábyrgðir án þess að taka neitt fyrir sinn snúð. Það mun taka áhættu fyrir hönd skattgreiðenda, án þess að greiðsla komi fyrir í samræmi við markaðslögmál. Ríkið mun veita ýmsar aðrar ívilnanir til að draga hluthafa inn í dæmið.
Meðal annars mun ríkið hlífa málsaðilum við að greiða fullar bætur fyrir óafturkræfan skaða, sem þeir valda náttúrunni. Alþjóðabankinn er farinn að meta slíkan skaða til fjár og fær út himinháar tölur, sem eru langt fyrir ofan það, sem jólagjöfin í ár getur staðið undir.
Virkjunin við Kárahnjúka mun stórspilla stærsta hálendisvíðerni Evrópu, þar á meðal rúmlega hundrað fossum. Uppistöðulón með breytilegu vatnsborði munu valda uppblæstri gróðurþekju hálendisins. Stórfelldir vatnaflutningar munu raska náttúrunni niðri í byggð.
Dæmin hér að ofan benda til, að Austurlandsvirkjun og Reyðarál muni verða þjóðinni dýr. Þau muni skaða atvinnuvegi, orkunotendur og skattgreiðendur um ókomna framtíð og valda náttúruspjöllum, sem aldrei verða bætt. Verið er að fórna hagsmunum afkomenda okkar.
Íslendingar verða hafðir að háði og spotti um allan hinn vestræna heim fyrir þá heimsku, að láta þrönga sérhagsmuni valda öllu þessu tjóni á peningum og náttúru. Ekki getum við borið fyrir okkur vanþekkingu, því að öll vandamálin eru orðin kunn fyrir löngu.
Skugginn af jólagjöf ríkisstjórnarinnar í ár mun verða langur og fylgja þjóðinni langt inn í ókomna framtíð, óbrotgjarn minnisvarði um skammsýni og þrjózku.
Jónas Kristjánsson
DV