Nanna Rögnvaldardóttir: Matarást, alfræðiorðabók um mat og matargerð, Iðunn, 1998.

Veitingar

Árum saman hef ég verið að leita að þessari bók í erlendum bókaverzlunum og upp á síðkastið einnig á Netinu, uppflettibók orða um mat og matargerð. Eftir árangurslausa leit í öðrum sveitum birtist hún núna skyndilega í túngarðinum heima og meira að segja á íslenzku.

Matarást Nönnu Rögnvaldardóttur er bókstaflega þungavigtarbók, 3 kíló og 700 síður. Ég fletti í henni fram og aftur til að finna eitthvað, sem vantaði í hana og fann ekki fyrr en í 24ðu atrennu. Ekki er neitt skráð undir brotnu hveiti eða cracked wheat, svo að ég varð sjálfur að vita, að það heitir bulgur á tyrknesku til að finna það í bókinni.

Annars er nánast allt hér að finna, íslenzk orð, ensk og frönsk og orð úr framandi matargerðarhéruðum. Hér eru grísku orðin og þau arabísku, japönsku orðin og þau indversku. Hér er fullt af staðreyndum, sem ég hafði ekki hugmynd um, svo sem að carpaccio hafi ekki verið fundið upp fyrr en 1961 og þá af Arrigo Cipriani í Feneyjum.

Sumt er leiðrétt af því, sem ég hef fengið skakkt í hausinn. Ég hélt, að tiramisù hefði borizt til Feneyja úr Miklagarði, en nú fæ ég að vita, að þessi góði réttur hafi ekki verið fundinn upp fyrr en í Trevisio árið 1965.

Í bókinni er munað eftir, að Guðrún Ósvífursdóttir hafi átt laukagarð, en því gleymt, að Steingrími Hermannssyni þykir grautur góður. Vitnað er í James Bond, sem vildi martíníið hrist en ekki hrært, í séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, sem mælti með salatáti, og í marga heiðursmenn þar á milli.

Hér fæ ég að vita, hvernig gerðir eru þjóðkunnir mömmuréttir á borð við fátæka riddara og falskan héra, innan um uppskriftir að gamalfrönsku tournedos Rossini og nýfrönsku crème brûlée eftir margfrægan Bocuse í Lyon. Bókin er sannkallað allsnægtahorn.

Meginefni bókarinnar er þrívítt. Á miðjum síðum er breiður dálkur, sem er alfræðiorðabók matar og matargerðar í 3.000 flettum. Inni í kili er mjórri dálkur með hliðartilvísunum í aðra kafla. Og úti á kanti er þriðji dálkurinn með uppskriftum, sem varða hliðstætt efni alfræðiorðabókarinnar.

1.600 slíkar uppskriftir eru í bókinni, ekki langar uppskriftir með tuttugu atriða innihaldi, heldur stuttar og viðráðanlegar uppskriftir fyrir venjulega kokka í venjulegu heimiliseldhúsi.

Ef ég ramba á hummus í alfræðiorðabókinni, get ég lesið um það, prófað uppskriftina við hliðina, eða lesið mig eftir hliðartilvísunum um tahini eða mezze, og vafrað þannig fram og aftur um bókina, rétt eins og ég sé kominn í gagnabanka á vefnum.

Til styrktar þessum þrívíða megintexta eru nokkrir formálar, sem skýra tilurð og notkun bókarinnar, síðan langur kafli litmynda af grænmeti og ávöxtum og síðast en ekki sízt ýmiss konar atriðisorða- og nafnaskrár aftast.

Prentvillur (“Hutingtonskíri”, bls. 693) eru sárafáar í bókinni og annar frágangur góður. Mér sýnist bókarheiti vanta framan á kápunni, þótt ráð hafi verið gert fyrir því í hönnun. Enn fremur hefur gallað forrit verið notað við stafrófsröðun, svo að broddstafir eru í bland við móðurstafi þeirra, en ekki á eftir, svo sem vera skal á íslenzku.

Þetta eru smámunir í samanburði við að geta horft fram á ótal ánægjustundir fram eftir vetri við að vafra fram og aftur í sérstæðu snilldarverki Nönnu Rögnvaldardóttur.

Jónas Kristjánsson

DV