Hlutabréfakaup og -sala eru ágætt gróðafæri fyrir hákarla í djúpu lauginni. Þú átt ekkert erindi í þessa laug fjármálaheimsins, hvorki einn sér né með leiðsögn ráðgjafa á borð við svokallaða fjárvörzlumenn í bönkum. Hlutabréf eru fyrst og fremst ágætur vettvangur fyrir innherja.
Hlutabréf eru meira að segja hættuleg almenningi í Bandaríkjunum, þar sem reglur um upplýsingaskyldu fyrirtækja þykja betri en annars staðar og að minnsta kosti ýtarlegri en hér á landi. Nýjasta dæmið um það er gjaldþrot Enron, sem var með stærstu orku- og olíufélögum.
Stjórnendur og endurskoðendur fyrirtækisins vissu hvert stefndi, gáfu kolrangar upplýsingar um afkomuna, eyddu mikilvægum skjölum, skutu hagsmunum sínum undan með því að selja hlutabréf í kyrrþey og létu almenna hluthafa og starfsmenn sitja uppi með sárt ennið.
Græðgin í Bandaríkjunum kemur hingað, ef hún lifir ekki þegar góðu lífi hér á landi. Innherjar vita einir, hvernig staðan er og hvernig mál munu þróast. Þeir vita einir, hvert þeir ætla að stefna málum fyrirtækisins. Þeir hafa pólitísk sambönd, sem koma eða koma ekki að gagni.
Flestir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar Bandaríkjanna eru hluthafar í Enron, sumir stórir. Þegar vandræði fyrirtækisins voru byrjuð að hrannast upp í fyrra, hafði Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna forustu um að misnota ríkisvaldið til að reyna að bjarga fyrirtækinu.
Meðal annars fóru fulltrúar margra ráðuneyta til Indlands til að hóta stjórn landsins bandarískum refsiaðgerðum, ef hún leysti Enron ekki undan skyldum sínum sem aðaleigandi misheppnaðs orkuvers í Dabhol. Þetta fantabragð mistókst, af því að Indverjar létu ekki kúga sig.
Hér á landi höfum við einnig séð ríkisvaldið misnotað í þágu innherja. DeCode Genetics fékk ókeypis einkaleyfi og fékk að gera uppkast að reglugerð um meðhöndlun á sjúkraskýrslum, rétt eins og Enron fékk að hafa áhrif á reglugerð um ríkisstuðning við olíuleit í framhaldi af hugsanlegum orkuskorti vegna ófriðarhættu.
Ríkisstuðningurinn við Enron dugði ekki og fyrirtækið var látið rúlla, þegar innherjarnir höfðu í kyrrþey losað sig við hlutafé sitt. Verðgildi hlutafjár í Enron gufaði upp, án þess að venjulegir hluthafar áttuðu sig á, hvaðan á þá stóð veðrið, líka þeir sem vissu um ríkisafskiptin.
Hér á landi eru margir, sem þykjast vera sérfræðingar í hlutabréfum og mæla með slíkri fjárfestingu umfram kaup á stöðugri pappírum á borð við opinber skuldabréf. Þeir notuðu uppsveiflu á síðari hluta síðasta áratugar til að tala hlutabréf upp í fjölmiðlum og í almennri ráðgjöf.
Árin 2000 og 2001 sáum við, að bjartsýni þessara svokölluðu sérfræðinga átti ekki við rök að styðjast. Þeir, sem fjárfestu í hlutabréfum, töpuðu yfirleitt peningum, meðan hinir varðveittu höfuðstólinn, sem fóru með löndum í fjárfestingunni og sættu sig við minni væntingar.
Fjárvörzlumenn í bönkum og aðrir meintir sérfræðingar vita lítið meira en þú um stöðu og þróun mála. Yfirleitt er þetta ungt fólk, nýskriðið úr skólum. Það áttar sig ekki á aðstæðum, en er vopnað takmarkalausu og ástæðulausu trausti á getu sína til að fara með annarra manna fé.
Raunar skiptir litlu, hversu mikið fjárvörzlumenn þroskast á mistökum sínum. Þeir vita alltaf minna en hákarlarnir í djúpu lauginni.
Jónas Kristjánsson
FB