Hroki og silfurskeið

Greinar

Reykvíkingar eiga dapurra kosta völ í borgarstjórnarkosningunum í sumar. Stóru fylkingarnar hafa ákveðið að láta þær eingöngu snúast um sterka leiðtoga, sem muni heyja einvígi í kosningabaráttunni. Vafalaust telja hönnuðir baráttunnar, að það henti ófullveðja kjósendum.

Annars vegar er boðin endurnýjuð leiðsögn borgarstjóra, sem hefur fengið átta ár til að þróa með sér hrokann, er greinilega sést í orðahnippingum í sjónvarpi. Miklar vinsældir borgarstjórans í könnunum sýna, að Reykvíkingum hentar að lúta vilja hins sterka leiðtoga.

Gegn þessu er borgarbúum boðinn ættarlaukur, sem fæddur er með silfurskeið í munni og fær vegsemdir sínar á silfurfati. Frægasta silfurfatið er það síðasta, þegar hann gat mánuðum saman ekki ákveðið sig og þurfti flókna hönnun atburðarásar til að verða borgarstjóraefni.

Fylkingarnar hafa ákveðið að fela óbreytta frambjóðendur bak við leiðtogana, enda sýna skoðanakannanir, að nánast undantekningarlaust eru venjulegir borgarfulltrúar með allra óvinsælustu mönnum. Pólitíkusar í landsmálum mælast ekki eins hrapallega og þeir.

Í þriðju og minnstu sveit fara fulltrúar hinna vansælu, sem bjóða öllum ófullnægðum sérhagsmunum faðminn, hversu ólíkir og andstæðir sem þeir eru innbyrðis. Þetta er dæmigert einna kosninga framboð, sem getur auðveldlega komizt í oddaaðstöðu á næsta kjörtímabili.

Litlu skiptir, hverjir sigra í sumar. Reykjavíkurlistinn hefur á átta árum sýnt fram á, að völd hans jafngilda ekki móðuharðindum. En hann hefur ekki sýnt fram á, að merkjanlegur munur sé á honum og Sjálfstæðisflokknum, enda eru borgarmál fremur tæknileg en pólitísk.

Í rauninni eru það embættismenn, sem ráða borginni. Á nefndafundum hafa þeir algera yfirburði yfir dáðlitla borgarfulltrúa, sem ekki hafa neitt tæknivit, en hafa þeim mun meiri áhuga á fyrirgreiðslum. Embættismenn matreiða upplýsingar ofan í pólitíska nefndarmenn.

Skipulagsnefnd borgarinnar er dæmi um þetta ójafnræði, þar sem illa upplýstir borgar- og varaborgarfulltrúar hafa smám saman fengið það vanþakkláta hlutverk að verja misvitrar ráðstafanir embættismanna, sem sumir hverjir telja sig eiga borgina með húð og hári.

Lína-Net er málið, sem helzt gæti leitt til hreins meirihluta annarrar af stóru fylkingunum. Ef stuðningsmönnum þess tekst að sýna fram á, að vit sé í skýjaborgunum, fá þeir bónus hjá borgarbúum, annars fá andstæðingarnir bónus. Á þessu stigi er ekki hægt að spá niðurstöðunni.

Úrslit kosninganna gætu haft skemmtileg hliðaráhrif á landsmálin, ef núverandi meirihluti og Ólafur læknir sameinast um nýjan meirihluta, sem ákveður, að fulltrúar borgarinnar í Landsvirkjun vinni gegn Kárahnjúkavirkjun og magni þar með mikil vandræði málsins.

Líkur eru þó á, að flestir borgarbúar velji milli dálætis síns á hrokafulla borgarstjóranum annars vegar og borgarstjóraefninu með silfurskeiðina og silfurfatið hins vegar. Málefni á borð við Línu-Net munu falla í skugga forgangsröðunar kjósenda á slíkum mannkostum leiðtoganna.

Niðurstaðan er augljós. Stjórnmálamenn koma og fara, en misvitrir embættismenn sitja sem fastast, þrautþjálfaðir í að matreiða upplýsingar ofan í fáfróða borgarfulltrúa.

Jónas Kristjánsson

FB