Glæpagengi úthýst

Greinar

Vítisenglar, sem komu til landsins fyrir helgi, fengu rétta meðferð lögreglunnar. Umsvifalaust var vísað til baka þeim, sem höfðu verstu glæpina á samvizkunni. Hinir, sem minna höfðu brotið af sér, voru hafðir undir eftirliti, unz úrskurður fékkst um, að einnig mætti vísa þeim úr landi.

Vítisenglar eru einn af mörgum hópum vestrænna glæpamanna, sem eru okkur miklu hættulegri en íslamskir hryðjuverkamenn á borð við Talibana og al Kaída. Vítisenglar eru ein af svokölluðum mafíum Vesturlanda, sem grafa undan þjóðfélaginu með skipulögðum glæpum.

Íslamskir hryðjuverkahópar hafa lítinn áhuga á Íslandi. Landið er of lítið og afskekkt fyrir fréttnæm hryðjuverk. Þar á ofan er það í Evrópu, sem ekki telst lengur hinn sami djöfull og Bandaríkin eru í augum margra múslima eftir langvinnan og eindreginn stuðning þeirra við Ísrael.

Sem betur fer hefur linnt gömlu sambandi Íslands og Ísraels. Því harðskeyttara hryðjuverkaríki, sem Ísrael hefur orðið á síðustu áratugum, þeim mun meira hefur það fjarlægzt okkur. Kúgaðir og niðurlægðir Palestínumenn njóta vaxandi samúðar hér á landi og það vita múslimar.

Við þurfum samt að gæta okkar, ekki á austrænum ofsatrúarmönnum, heldur á vestrænum glæpamönnum, sem hvað eftir annað hafa reynt að teygja anga sína til Íslands. Einna oftast hafa Vítisenglar reynt að koma sér fyrir hér á landi með aðstoð íslenzkra meðreiðarsveina.

Fleiri gengi eru hættuleg en Vítisenglar, sem hafa þann Akkillesarhæl að ganga í auðþekktum einkennisbúningum og bera augljós líkamslýti. Flestar mafíur senda hingað borgaralega klædda menn, sem ekki stinga í stúf við hversdagslega ferðamenn eða kaupsýslumenn.

Viðfangsefni þessara glæpamanna er hið sama, hvort sem þeir bera húðmerki, sólgleraugu eða engin sérkenni. Þeir reka nætur- og nektarklúbba með tilheyrandi vændi. Þeir reka spilavíti. Þeir selja ólögleg fíkniefni. Þeir fylla einfaldlega í eyður þess, sem bannað er eða fordæmt.

Einfaldasta leiðin til að kippa fótunum undan rekstri ýmiss konar glæpasamtaka er að lögleiða vændi og spilavíti og hefja ríkissölu á ólöglegum fíkniefnum, rétt eins og hinum löglegu, það er að segja áfengi og læknalyfjum. Þar með hefðu mafíur ekkert upp úr sér hér á landi.

Munurinn á vestrænum mafíum og austrænum ofsatrúarhópum er, að hinir fyrrnefndu ganga fyrir peningum og sækja þangað, sem þá er að hafa. Meðan við höfum boð og bönn, sem gefa kost á fjárhagslegri neðanjarðarstarfsemi, þurfum við að hreinsa landið með lögregluvaldi.

Versta einkenni glæpahópanna er, að þeir flytja með sér sérstæðar siðareglur, sem stinga í stúf við hefðbundnar siðareglur. Þeir mynda eins konar ríki í ríkinu, þar sem gilda önnur lög en gilda í þjóðfélaginu almennt. Þannig grafa þeir undan samfélaginu og eitra það að innan.

Við þurfum að nýta til fulls samstarfið í Schengen, Europol og Interpol til að hindra landgöngu fólks, sem á aðild að skipulögðum glæpasamtökum. Jafnframt þurfum við að finna leiðir til að koma aftur á vegabréfaskoðun, þrátt fyrir ákvæði Schengen-samkomulagsins um vegabréfalausar ferðir milli landa.

Samræmdar aðgerðir löggæzlunnar gegn Vítisenglum í síðustu viku sýna sem betur fer fullan vilja á að varðveita lög og rétt hér á landi.

Jónas Kristjánsson

FB