Leppríki Ísraels

Greinar

Íran á ekki heima á því, sem bardagaglaður Bush Bandaríkjaforseti nefnir “illan öxul” frá Írak til Norður-Kóreu. Afturhaldsöfl klerkastéttar og lýðræðisöfl forseta Írans takast á um völdin í landinu. Við þær aðstæður er mikilvægt, að ekki sé verið að stimpla ríkið sem óargadýr.

Það er hreinn tilbúningur Bandaríkjastjórnar, að Íran hafi komið Talibönum og liðsmönnum al Kaída undan sigurvegurum stríðsins í Afganistan. Íran hefur alltaf verið andvígt báðum þessum öflum af trúarástæðum og var næstum komið í stríð við Talibana fyrir þremur árum.

Talibanar og liðsmenn al Kaída flúðu hins vegar til Pakistans, þar sem þeir eiga öruggt griðland, þar á meðal helztu liðsoddarnir. En Pakistan er í bandalagi við Bandaríkin, svo að ekki má tala um þá staðreynd, heldur skella skuldinni á Íran, sem ekki kemur neitt við sögu í málinu.

Íran hefur hins vegar stutt uppreisnarhópa gegn hernámi Ísraels í Suður-Líbanon og Palestínu, meðal annars með hergögnum. Þetta er eðlilegur stuðningur við þrautkúgað fólk og felur ekki í sér ógnun við Vesturlönd eða Bandaríkin, aðeins við hryðjuverkaríkið Ísrael.

Staðreyndin er sú, að það er Ísrael, sem hefur komið Íran á lista Bandaríkjastjórnar yfir þrjú hættulegustu ríki heimsins, hinn illa öxul frá Írak til Norður-Kóreu samkvæmt orðalagi Bush Bandaríkjaforseta. Hagsmunir Ísraels ráða þessu, en ekki hagsmunir Bandaríkjanna.

Ísrael hefur hreðjatök á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Enginn forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum þorir að láta hjá líða að lýsa yfir eindregnum stuðningi við Ísrael. Og enginn getur náð sæti á Bandaríkjaþingi gegn andstöðu þrýstihópanna, sem gæta hagsmuna Ísraels.

Þessir þrýstihópar stuðningsmanna Ísraels eru svo öflugir í Bandaríkjunum, að enginn stjórnmálamaður kemst til áhrifa þar í landi án þess að fylgja þeim að málum. Víðast annars staðar væru þetta talin landráð, en í Bandaríkjunum virðast kjósendur vera sáttir.

Hér er ekki rúm til að skýra, hvernig stuðningsmenn lítils hryðjuverkaríkis hafa komizt í þá stöðu að stjórna utanríkisstefnu Bandaríkjanna og tefla því á brún styrjaldar við ríki, sem hefur það eitt sér til saka unnið að styðja þrautkúgað fólk á hernámssvæðum Ísraels.

Afleiðingarnar eru hins vegar ljósar. Bandaríkjastjórn er svo upptekin af þjónustu við hagsmuni Ísraels, að hún fórnar í staðinn hagsmunum sínum af góðu samstarfi við Evrópu, til dæmis í Atlantshafsbandalaginu, og bakar sér almennt hatur fólks í löndum íslamskrar trúar.

Blind þjónusta Bandaríkjanna við hagsmuni lítils hryðjuverkaríkis hefur leitt til aukinna áhrifa laustengdra hryðjuverkahópa á borð við al Kaída, sem eiga einkum trúarlegar rætur sínar í Sádi-Arabíu, en ekki í Íran, og beina spjótum sínum gegn Bandaríkjunum.

Hryðjuverkin á Manhattan og árásin á Afganistan eru þættir í vítahring, sem byggir tilveru sína á því, að Bandaríkin hafa hafnað evrópskum sjónarmiðum í garð íslams og leggja utanríkisstefnu sína í sölurnar fyrir eitt mesta vandræðaríki heims um þessar mundir.

Segja má, að rófan sé farin að veifa hundinum of hastarlega, þegar Bandaríkin koma fram á alþjóðavettvangi sem leppríki Ísraels og eru í því hlutverki farin að stofna heimsfriðnum í voða.

Jónas Kristjánsson

FB