Utanríkisráðherra hefur komizt að raun um það, sem hann grunaði, að Evrópusambandið hefur engan áhuga á að uppfæra samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Sambandið er svo önnum kafið við að melta Austur-Evrópu, að það vill ekki láta Ísland trufla sig á næstu árum.
Þar sem flest mikilvægustu ríki Evrópska efnahagssvæðisins eru þegar gengin í Evrópusambandið, er restin af svæðinu ekki lengur í fókus sambandsins. Við fáum ekki tækifæri til að koma hagsmunum okkar á framfæri, þegar Austur-Evrópa gengur í sambandið.
Þetta spillir væntingum um sölu sjávarafurða til uppgangsþjóða Austur-Evrópu. Í stað fyrra tollfrelsis munu sjávarafurðir okkar sæta háum tollum á þeim slóðum. Það verður eitt skýrasta dæmið um tjón okkar af þvermóðsku íslenzkra stjórnvalda gegn Evrópusambandinu.
Með því að neita að taka umsókn um aðild að Evrópusambandinu á dagskrá hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekizt að tefja málið svo lengi, að viðræður sambandsins við Austur-Evrópu eru komnar fram fyrir viðræður við Ísland. Við verðum því úti í kuldanum mörg ár í viðbót.
Þegar Austur-Evrópa er komin í sambandið, verður það orðið að breyttri stofnun með ný og erfið verkefni, sem draga úr getu þess og vilja til að taka milda afstöðu til hagsmuna smáríkis, sem seint og um síðir beiðist inngöngu. Þessi staða er stærsta afrek núverandi ríkisstjórnar okkar.
Við þurfum samt ekki að örvænta, því að þýðendur íslenzkra ráðuneyta munu áfram sitja með sveittan skallann við að snara evrópskum reglum yfir á íslenzku. Það er í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, að reglur sambandsins gildi líka á Íslandi.
Flestar þessar reglur eru gagnlegar. Þær stuðla yfirleitt að fastari reglum um málefnalega stjórnsýslu hér á landi og gæta yfirleitt hagsmuna lítilmagnans gegn þeim, sem völdin hafa og dýrðina. Við höfum þegar séð feiknarlega góð áhrif Evrópusambandsins á íslenzka dómstóla.
Þar sem við erum utan sambandsins, höfum við ekki aðstöðu til að spyrna við fótum í tæka tíð, þegar með reglugerðunum slæðast ákvæði, sem henta verr á Íslandi en á meginlandi Evrópu vegna misjafnra hefða, til dæmis meiri áherzlu á skorpuvinnu og unglingavinnu hér á landi.
Það var einmitt með tilliti til slíkrar sérstöðu, að Svíar ákváðu að ganga í Evrópusambandið til að hafa innan þess áhrif á gang mála, áður en þau yrðu að formlegum reglum. Við verðum hins vegar að sætta okkur við að taka pakkana frá Evrópu eins og þeir koma af skepnunni.
Þessi staða skerðir fullveldi okkar meira en full aðild að sambandinu mundi gera. Enda mun forsætisráðherra reynast erfitt að telja þjóðinni trú um, að henni hafi tekizt betur að varðveita fullveldi sitt utan sambandsins en ríkjum á borð við Danmörku hefur tekizt að gera innan þess.
Of seint er að harma það, sem liðið er. Við þurfum hins vegar að gera okkur grein fyrir, að inntökuskilyrði sambandsins verða strangari árið 2010 en þau voru 1995. Sambandið mun framvegis hafa minna svigrúm til að taka tillit til séríslenzkra hagsmuna en það hafði áður.
Við fáum hins vegar engu breytt um þá staðreynd, að viðskipti okkar og hagsmunir liggja í löndum stækkaðs Evrópusambands langt umfram Norður-Ameríku og þriðja heiminn.
Jónas Kristjánsson
FB