Þeir töluðu ekki við mig

Greinar

Er samgönguráðherra var spurður álits á brotthvarfi lággjaldaflugfélagsins Go af íslenzkum markaði, sagði hann: “Þeir töluðu ekki við mig.” Að baki orðanna er sú skoðun, að ráðamenn Go hefðu átt að skríða fyrir ráðherranum og væla út afslætti af gjöldum á Keflavíkurvelli.

Á Vesturlöndum tíðkast ekki það þriðja heims siðferði, að rekstur fyrirtækja sé háður fyrirgreiðslum úr stjórnarráði. Þar er talið skaðlegt, að pólitísk sambönd séu meira virði en hefðbundin rekstrarlögmál. Hér á landi ríkis hins vegar þriðja heims siðferði í ráðuneytum.

Sturla Böðvarsson er gróft dæmi um skaðlegan þriðja heims stjórnmálamann. Með fyrirgreiðslum til innlendra gæludýra kom hann í veg fyrir, að almenningur gæti notið ódýrs millilandaflugs í daglegri áætlun. Síðan vildi hann, að ráðamenn Go kæmu og flöðruðu upp um sig.

Annað dæmi um þriðja heims siðferði ráðherrans er 150 milljón króna sjóður, sem hann hefur komið upp í ráðuneytinu til að styrkja markaðssetningu gæludýra í ferðaþjónustu. Ekki var skipuð nein fagleg nefnd til að úthluta þessu fé, heldur ætlar hann að gera það sjálfur.

Samkvæmt vestrænum siðum ber stjórnvöldum að smíða heildarramma, sem henta fyrirtækjum almennt, en ekki stunda sértækar aðgerðir í þágu valinna fyrirtækja. En siðalögmál eiga ekki upp á pallborðið hjá ráðherrum, sem hafa valdamenn frá Afríku sér til fyrirmyndar.

Þannig hefði samgönguráðherra getað notað 150 milljónirnar til að búa svo um hnútana, að flugstöð Leifs Eiríkssonar væri samkeppnishæf við erlendar flughafnir í þjónustu við flugfélög almennt í stað þess að nota peningana til að borga mönnum fyrir að smjaðra fyrir sér.

Ef Keflavíkurflugvöllur væri samkeppnishæfur við flugvelli í Evrópu, mundi samkeppni flugfélaga aukast og ferðamönnum fjölga. Þetta skiptir ráðherrann og ríkisstjórnina engu máli í samanburði við möguleika þeirra á að láta mola hrjóta af allsnægtaborði til gæludýra.

Þriðja dæmið um afríkönsk vinnubrögð ráðherrans er 10 milljón króna styrkur til eins erlends flugfélags til að fljúga frá Evrópu til Egilstaða á háannatíma sumarsins. Þessi fyrirgreiðsla flokkast undir byggðastefnu og hlaut því náð hins sértæka ráðherra, sem hafnaði Go.

Sturla Böðvarsson hefur líka lagt sig í líma við að koma á vægari reglum um heilsufar flugmanna en tíðkast annars staðar í Evrópu og tíðkuðust hér á landi fyrir valdatöku hans. Afleiðingin er, að ferðabransinn í heiminum telur flug á Íslandi hættulegra en annað flug á Vesturlöndum.

Í þessum verkum ráðherrans og mörgum fleirum kemur fram skýr lína: Hlutverk hans er ekki að búa til almennan ramma fyrir heilbrigðan rekstur á sviði samgangna og ferðaþjónustu, heldur að efna til slefandi biðraða væntanlega gæludýra fyrir utan skrifstofu ráðherrans.

Þetta kann að styðja sjálfsmynd lélegs ráðherra, sem hefur hvað eftir annað misstigið sig á stuttum ferli og nýtur stuðnings flugmálastjóra, sem álítur meginhlutverk sitt felast í að friða ráðherrann. Hún er hins vegar skaðleg málaflokki ráðuneytisins og þjóðfélaginu í heild.

Afríkanskrar embættisfærslu að hætti samgönguráðherra verður vart víðar í stjórnkerfinu, þótt komið sé fram á nýja öld og enginn efist lengur um skaðsemi hennar í smáu og stóru.

Jónas Kristjánsson

FB