Dr. Jekyll er Mr. Hyde

Greinar

Persaflóastríðinu lauk aldrei. Bush eldri lýsti yfir sigri og skildi uppreisnarmenn í Írak eftir í klóm Saddam Hussein árið 1991. Síðan hefur forseti Íraks ögrað forsetum Bandaríkjanna hverjum á fætur öðrum. Nú er komið að málalokum. Bush yngri hyggst loksins ljúka verki föður síns.

Erfitt er að mæla gegn slíku. Saddam Hussein er sem fyrr hættulegur umhverfinu og reynir að safna fjöldaslátrunarvopnum. Hann er að vísu fastari í sessi en Talibanar í Afganistan, en á þó við að etja eins konar ígildi Norðurbandalags í minnihlutahópum Kúrda í norðri og Sjíta í suðri.

Margir efast um, að Bandaríkin geti reitt sig á mikinn stuðning innan Íraks eftir ófarirnar 1991. Við verðum þó fremur að treysta mati bandarískra herstjóra á stöðunni. Þeir virðast telja sig geta velt Saddam Hussein úr sessi án teljandi mannfórna af sinni hálfu og án mikils mannfalls almennings.

Fyrirhuguð styrjöld Bandaríkjanna við Saddam Hussein Íraksforseta er ekki framhald stríðs þeirra við Talibana og al Kaída í Afganistan. Engin gögn benda til, að Saddam Hussein tengist hryðjuverkum þeirra á Vesturlöndum. Þvert á móti hefur hann haldið sig til hlés um langt árabil.

Ef menn vilja styðja fyrirhugaða árás á Saddam Hussein, geta þeir ekki gert það með tilvísun til aðildar hans að hryðjuverkum á Vesturlöndum. Hún verður aðeins studd þeim rökum, að hún sé eðlilegt framhald af stríði, sem menn létu undir höfuð leggjast að ljúka fyrir einum áratug.

Hitt er svo annað og verra mál, að heimurinn er allt annar en hann var fyrir áratug og raunar allt annar en hann var fyrir hryðjuverkin á Manhattan og í Pentagon í haust. Bandaríkin hafa breytzt. Þau eru orðin að einráðu heimsveldi, sem fer sínu fram án nokkurs tillits til bandamanna sinna.

Þessi breyting hófst fyrir valdatöku Bush yngri og magnaðist eftir hana. Bandaríkin hafa um nokkurt skeið neitað að taka á sig nokkrar alþjóðlegar skuldbindingar til þess að takmarka ekki svigrúm sitt. Bandaríkin hafa tekið við af Sovétríkjunum sálugu sem afl hins illa í heiminum.

Bandaríkin eru nánast að hætta stuðningi við þróunarlöndin og greiða ekki hlut sinn af kostnaði Sameinuðu þjóðanna. Þau undirrita ekki samninga um jarðsprengjubann og efnavopnaeftirlit. Þau hafna alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum og takmörkunum á útblæstri eiturefna.

Raunar ákvað Bush Bandaríkjaforseti í lok síðustu viku að auka útblástur eiturefna eins mikið á þessum áratug og Evrópa hefur tekið að sér að minnka hann á sama tíma. Eiginhagsmunastefna Bandaríkjanna er orðin svo eindregin, að hún er orðin að mestu ögrun mannkyns á nýrri öld.

Með sigrinum í Afganistan fundu Bandaríkin hernaðarmátt sinn og megin. Með auknum stuðningi við hryðjuverkaríkið Ísrael hafa Bandaríkin myndað nýjan öxul hins illa í heiminum, studdan nýjum leppríkjum á borð við Pakistan, sem er ein mesta gróðrarstía hryðjuverka í heiminum.

Evrópa á ekki heima í þessu bandalagi og er farin að átta sig á hinni nýju og alvarlegu stöðu heimsmála. Hver ráðamaður Evrópu á fætur öðrum er farinn að stinga við fótum, Chris Patten, Hubert Vedrine og Joschka Fischer. Menn eru farnir að sjá Dr. Jekyll breytast í Mr. Hyde.

Í ljósi þess, að það eru Bandaríkin og Bush miklu fremur en Írak og Saddam Hussein, sem eru hættuleg umheiminum, má Evrópa alls ekki láta flækja sig í nýtt ofbeldi af hálfu Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

FB