Þegar núverandi forsætisráðherra var borgarstjóri Reykjavíkur, lét hann reka ræstingakonu fyrir að nota síma hans. Sem forsætisráðherra heldur hann verndarhendi yfir forstöðumanni Þjóðmenningarhúss, sem er í vondum spillingarmálum upp á margar milljónir króna.
Forstöðumaður Landmælinga Íslands var á sínum tíma rekinn og dæmdur fyrir upphæðir, sem nema broti af fjárhæðunum, sem Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við hjá forstöðumanni Þjóðmenningarhúss. Um fimmtugfaldur munur er á fjárhagslegu umfangi málanna.
Því er eðlilegt, að fólk spyrji, hvers vegna ræstingakonan og Landmælingastjórinn voru rekin, en forstöðumaður Þjóðmenningarhúss fær bara áminningu. Svarið er einfaldlega, að ræstingakonan og Landmælingastjórinn voru ekki í hópi pólitískra skjólstæðinga forsætisráðherra.
Af skýrslu Ríkisendurskoðunar má ráða, að forstöðumaður Þjóðmenningarhúss hefur frá upphafi lagt sig fram um að maka krókinn í starfi. Ríkisendurskoðun vísar að öðru leyti málinu til forsætisráðuneytisins og forsætisráðherra, sem bera ábyrgð á störfum forstöðumannsins.
Komið hefur fram í öðrum málum, t.d. máli Landsbankastjóranna fyrir fjórum árum, að Ríkisendurskoðun lítur á sig sem skoðunarstofu bókhalds. Hún telur ekki á sínu færi að gera tillögur til aðgerða og vísar slíku til ráðuneyta eða Alþingis, sem hún heyrir raunar beint undir.
Því ber forsætisráðuneyti að taka á máli forstöðumannsins og síðan Alþingi, ef það telur forsætisráðherra hafa staðið illa að verki. Forsætisráðherra hefur þegar sýknað forstöðumanninn. Alþingi er auðsveip atkvæðavél forsætisráðherrans og mun því drepa málinu á dreif.
Eini þröskuldurinn í vegi spillingarinnar er embætti ríkissaksóknara, sem starfar óháð öðrum stjórnvöldum og getur tekið upp spillingarmál, sem önnur og spilltari stjórnvöld láta hjá líða að vísa þangað. Embættið hefur þegar sagzt munu taka til meðferðar mál forstöðumannsins.
Spillingin í Þjóðmenningarhúsi er svipaðs eðlis og spillingin í Símanum. Gæludýr eru á framfæri stjórnmálaflokka og -manna. Þau komast til áhrifa í ríkiskerfinu út á pólitísk sambönd. Þau telja sig munu njóta pólitískrar verndar, ef upp kemst um græðgi þeirra. Þau maka því krókinn.
Mat gæludýranna er rétt. Ef þau fara klaufalega gírugt að við kjötkatlana, fá þau áminningu og í versta tilviki starfslokasamning upp á tugi milljóna króna. Almenn lög í landinu um stjórnsýslu, meðferð opinberra fjármuna og hlutafélagalög gilda ekki um pólitísku kvígildin í landinu.
Við búum í þjóðfélagi, sem rithöfundurinn George Orwell lýsti í bókinni: Félagi Napóleon. Öll dýrin eru jöfn, en sum eru jafnari en önnur. Annars vegar er allur almenningur, frá skúringakonum upp í Landmælingastjóra. Hins vegar eru þeir, sem eru í náðinni hjá ráðamönnum þjóðarinnar.
Auðvitað er þetta eina ríkið á Vesturlöndum, þar sem ekki hafa verið sett ströng lög um fjárreiður stjórnmála. Auðvitað er þetta eina ríkið á Vesturlöndum, þar sem allar réttarbætur almennings koma að utan, frá erkibiskupum Evrópusambandsins, en engar koma innan frá.
Í grundvallaratriðum er Ísland eins konar Afríkuríki, þar sem velgengni manna ræðst af því, hversu duglegir þeir eru að bugta sig og beygja fyrir sjálfum Félaga Napóleon.
Jónas Kristjánsson
FB