Íslenzk omerta

Greinar

Omerta er hornsteinn mafíunnar, hin þægilega þögn. Í ellefu aldir hefur mafían lifað á þögninni. Fólkið á valdasvæðum hennar segir ekki til glæpanna, þótt það sé vitni að þeim. Af vana eða ótta snýr trúnaður almennings að staðarhöfði mafíunnar, en ekki að þjóðfélaginu í heild.

Í ellefu aldir hefur mafían verið ríki í ríkinu á sunnanverðri Ítalíu. Á síðustu öld teygði hún anga sína til Bandaríkjanna og undir lok aldarinnar varð hún fyrirmynd hliðstæðra samtaka í Austur-Evrópu og víðar. Alls staðar beitir hún omertu til að grafa undan ríkjandi þjóðskipulagi.

Íslenzka útgáfan af omertunni er málshátturinn: Oft má satt kyrrt liggja. Þagnarstefna er inngróin í þjóðarsálina, þótt hún geti þannig stundum varpað huliðsklæðum yfir löglaust eða siðlaust athæfi. Ekki eru öll vitni sannfærð um, að þeim beri að skýra þjóðfélaginu frá vitneskju sinni.

Sérstök tegund af omertu hefur verið til vandræða í sambúð þjóðfélagsins við ýmis stórfyrirtæki á Vesturlöndum. Samvizkusamir einstaklingar hafa komizt í klemmu vegna starfa sinna við fyrirtæki, þar sem þeir komast að raun um ólöglegt eða ósiðlegt athæfi stjórnenda.

Víða hafa verið sett lög til að verja hagsmuni þeirra, sem víkjast undan þeirri hefð omertunnar, að oft megi satt kyrrt liggja. Hér á landi eru ekki til slík lög. Þess vegna gátu siðleysingjarnir, er ráða Símanum, rekið starfsmanninn, sem sagði þjóðfélaginu frá taumlausri græðgi þeirra.

Upplýst var, að stjórnarformaður Símans lét fyrirtækið borga sér milljónir utan stjórnarlauna, sem þætti ekki góð latína í nágrannalöndunum. Þetta varð þjóðfélagið að fá að vita, en samvizkusami uppljóstrarinn var rekinn fyrir vikið. Hinn siðferðilegi lærdómur fer ekki milli mála.

Forsætisráðherra og ýmsir fleiri valdamenn hafa stutt brottreksturinn og þannig lagt lóð sitt á vogarskál omertunnar. Héðan í frá verða þeir því færri en ella, sem voga sér að láta samvizkuna stjórna gerðum sínum, þegar þeir geta valið þögnina um lögleysu eða siðleysu stjórnenda.

Síminn er kennslubókardæmi íslenzkrar spillingar. Þar hafa tveir samgönguráðherrar í röð komið upp ástandi, þar sem pólitísk gæludýr ráða ferðinni og maka krókinn í skjóli meira eða minna meðvitundarlausrar stjórnar, sem skipuð er gæludýrum ýmissa stjórnmálaflokka.

Undanfarnar vikur hefur hvert siðleysið á fætur öðru komið í ljós innan Símans, þar á meðal milljónaráðgjöf stjórnarformannsins og greiðslur til hótels, sem hann á með öðrum. Að mati hans og forsætisráðherra er brottrekstrarsök að segja þjóðfélaginu frá slíku athæfi.

Stjórnarformaðurinn, samgönguráðherrann og forsætisráðherrann endurspegla siðferði omertunnar. Starfsmaðurinn hefði að þeirra mati átt að reyna að vinna að siðbótum innan stofnunarinnar í stað þess að kjafta frá. Fullyrða má, að slíkum kverúlans hefði verið einkar illa tekið.

Í framvindu máls Árna Johnsen eins og máls Friðriks Pálssonar stjórnarformanns kom í ljós, að sem betur fer er til fólk hér á landi, er fer ekki eftir þeirri siðfræði omertunnar, að oft megi satt kyrrt liggja. Þeir hlýða samvizkunni og láta þjóðfélagið vita um svínaríið, sem þeir sjá.

Auðvitað verður þjóðfélagið að grípa til varna fyrir samvizkusama flytjendur válegra tíðinda, þegar hagsmunagæzlumenn omertunnar grípa til refsiaðgerða og hrifsa lifibrauðið af þeim.

Jónas Kristjánsson

FB