Fylgissnautt frumvarp

Greinar

Undarlegt er frumvarp sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar um 9,5% veiðigjald í sjávarútvegi, enda virðast flestir vera því andvígir, aðrir en ríkisstjórnin og Landssamband íslenzkra útvegsmanna. Frumvarpið sættir ekki sjónarmið deiluaðila, þótt það sé yfirlýst markmið þess.

Veiðigjaldsumræðan hefur þróazt á síðustu árum í átt til tveggja andstæðra sjónarmiða. Annars vegar eru þeir, sem ekki vilja leggja viðbótarálögur á sjávarútveg umfram aðrar atvinnugreinar. Hins vegar eru þeir, sem vilja endurheimta eignarhald auðlindarinnar í hendur þjóðarinnar.

Eftir birtingu skýrslu auðlindanefndar hafa hinir síðarnefndu í stórum dráttum sameinazt um fyrningarstefnu , sem felur í sér, að veiðirétturinn falli í áföngum frá útgerðarfyrirtækjum til ríkisins, sem geti síðan útdeilt honum að nýju, til dæmis með byggðakvóta og útboði veiðileyfa.

Hinir síðarnefndu hafa ákaflega misjafnar skoðanir á, hvernig fyrndum kvóta verði úthlutað að nýju. Sumir leggja mikla áherzlu á byggðakvóta til að styðja búsetu í sjávarplássum. Aðrir leggja mikla áherzlu á útboð veiðileyfa til að leyfa markaðinum að finna verðgildi kvótans.

Allir eru þeir þó sammála um fyrsta skrefið, það er að segja fyrningu núverandi kvóta. Fyrningarleiðin nýtur raunar mest fylgis með þjóðinni og er í samræmi við niðurstöðu auðlindanefndar. Frumvarp sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar er hins vegar á allt öðrum nótum.

Menn hljóta að velta fyrir sér, hvert sé raunverulegt markmið frumvarps, sem flestir eru andvígir. Er ríkisstjórnin að reyna að hleypa málinu upp og fá fellt fyrir sér frumvarp til að geta fórnað höndum og haldið óbreyttu kerfi á þeim forsendum, að ekki hafi náðst sátt um nýtt?

Slíkt hlýtur að teljast nokkuð glannafengið, því að fall stjórnarfrumvarps er álitshnekkir fyrir ríkisstjórnina í heild og sérstaklega þann ráðherra, sem flytur það fyrir hennar hönd. Slík leikflétta hlyti að byggjast á, að ætlunin sé að fórna svo sem einum sjávarútvegsráðherra í þágu fléttunnar.

Nokkrir stjórnarþingmenn hafa lýst andstöðu við frumvarpið, hver á sínum forsendum. Sjávarútvegsráðherra talar eins og þeir muni greiða atkvæði á móti frumvarpinu og hann hafi í staðinn ætlazt til, að stjórnarandstaðan eða hluti hennar styðji málið og komi því í höfn fyrir hann.

Hugsanlegt er, að ákafir veiðigjaldssinnar innan stjórnarandstöðunnar kunni að freistast til að styðja frumvarpið á þeirri forsendu, að betri sé vondur skattur en alls enginn skattur. Fremur langsótt hlýtur þó að teljast að leggja umdeilt frumvarp fram á grunni slíkra hálmstráa.

Hin pólitíska staða er þannig, að Samfylkingin, Vinstri grænir og Frjálslyndir vilja fyrningu og munu sigla undir þeim fána í næstu alþingiskosningum. Framsóknarflokkurinn verður þá í vandræðum með sig, því að meirihluti veiðistefnunefndar flokksins vill fyrningarleiðina.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins er hins vegar andvígur öllum álögum á sjávarútveg, enda er Landssamband íslenzkra útvegsmanna einn helztu hornsteina flokksins. Þessir aðilar telja ef til vill unnt að friða lýðinn með því að kasta í hann árlegu veiðigjaldi upp á tvo milljarða króna.

Líklega er raunverulegt markmið frumvarpsins ekki nein leikflétta, sem felur í sér fall þess og óbreytt ástand auðlindamála, heldur ímynda ráðamenn sér ranglega, að þeir hafi fundið sátt.

Jónas Kristjánsson

FB