Bíddu bara, þangað til ég verð stór. Bíddu bara, þangað til ég verð ráðherra. Þetta er innihaldið, þegar búið er að tína reiðilesturinn utan af skrautlegu bréfi formanns Samfylkingarinnar til forstjóra Baugs. Flokksformaðurinn segist vera langminnugur og muni hefna sín um síðir.
Málstíllinn hefur daprazt síðan hann var ráðherra árið 1994. Þá sagði hann: “Þú stjórnar Arnóri. Ég stjórna þér. Þessi ráðherra er ekki hræddur við að berjast. Ég minni þig á framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs, sem nú er fyrrverandi framkvæmdastjóri. Gleðileg jól.”
Starfsmaður veiðistjóra hafði sem félagi í Skotveiðifélaginu látið í ljós skoðun á rjúpnaveiði, sem ráðherranum mislíkaði. Hann heimtaði, að starfsmaðurinn yrði rekinn. Þegar veiðistjóri varð ekki við kröfunni, var hann sjálfur rekinn samkvæmt ofangreindri hótun valdhafans.
Ráðherrann sýndi ótrúlegan hrottaskap. Skoðun manna á rjúpnaveiði kemur ekki stjórnsýslunni við. Embættismenn geta ekki rekið starfsmenn sína út á símhringingar frá trylltum ráðherra. Og aðeins forhertur ráðherra getur rekið embættismann fyrir að stunda rétta stjórnsýslu.
Átta árum síðar er ráðherrann orðinn formaður Samfylkingarinnar. Hann á bróður, sem rekur fyrirtæki, er missti viðskipti við Baug af því að starfsmaður þess skoðaði gögn á skrifborði viðskiptavinarins. Formaðurinn taldi viðskiptaslitin vera óbeina hefnd fyrir sína eigin pólitík.
Þótt svo væri, sem er langsótt, getur formaður stjórnmálaflokks ekki sent bréf eða hringt með hótunum um hefndir. Slíkt verður aðeins þannig skilið, að hann ætli sér að hefna sín á Baugi, þegar hann verði orðinn valdhafi í landinu á nýjan leik. Slíkt geta menn bara í Afríkuríkjum.
Þáverandi umhverfisráðherra og núverandi formaður Samfylkingarinnar hefur alls ekkert lagazt á þessum átta árum. Hann fær enn stjórnlaus reiðiköst og hótar mönnum öllu illu. Sagan sýnir, að hann framkvæmir hótanir sínar, þegar hann fær tækifæri til að misbeita ráðherravaldi.
Bréf og símtöl formannsins sýna óvenjulegan dómgreindarskort. Hann hefur ekki stjórn á reiðinni og greinir ekki málefni frá persónu sinni. Að hans mati mátti Baugur ekki hætta að skipta við fyrirtæki bróðurins, rétt eins og ríkisstarfsmaður mátti ekki hafa einkaskoðun á rjúpnaveiði.
Í þessu samhengi skiptir engu, hvort formaðurinn biðst afsökunar á stjórnleysinu eða sér eftir því. Aðalatriðið er, hvernig hann muni haga sér, þegar hann verður ráðherra. Getur Samfylkingin boðið upp á stjórnlausa valdshyggju, þegar næst verður reynt að mynda ríkisstjórn?
Svarið er augljóst. Enginn stjórnmálaflokkur getur leyft sér að hefja stjórnarsamstarf við flokk, sem býður fram ráðherraefni, er fær stjórnlaus reiðiköst, krefst brottrekstrar ríkisstarfsmanna út af einkamálum, sem varða ekki stjórnsýsluna, og rekur menn fyrir að anza ekki óhæfunni.
Það er áfangi í vegferð þjóðarinnar frá gamalli valdshyggju inn í siðvætt nútímaþjóðfélag, frá ráðherraveldi til opins lýðræðis nágrannaríkjanna, að hún hafni frumstæðum valdamönnum, sem hafa ekki stjórn á sjálfum sér, sem hóta að misbeita ráðherravaldi og sem misbeita ráðherravaldi.
Hafa má það til marks um stöðu Íslendinga á þróunarbrautinni, hvort þeir velja sér ráðherra, sem fara eftir reglum um stjórnsýslu eða fara eftir hamslausu skapi og hamslausri valdshyggju.
Jónas Kristjánsson
FB