Vestrið hefur klofnað

Greinar

Verndartollar Bandaríkjanna á stáli eru nýjasta skrefið af mörgum í átt frá stefnu samstarfs við Evrópu til einhliða aðgerða heimsveldis, sem telur sig geta farið fram á fjölþjóðavettvangi nákvæmlega eins og því þóknast, af því að alls enginn geti staðizt snúning hernaðarmætti þess.

Evrópusambandið hefur að vísu ákveðið, að svara ekki í sömu mynt, heldur sækja mál gegn Bandaríkjunum fyrir Heimsviðskiptastofnuninni. Þar hafa Bandaríkin á síðustu tveimur árum tapað fimm málum, sem varða stál, og töpuðu um daginn skattafríðindamáli fyrirtækja á alþjóðamarkaði.

Evrópusambandið mun nota tækifæri stáltollanna til að hefja þær gagnaðgerðir, sem því eru heimilar samkvæmt reglum Heimsviðskiptastofnunarinnar vegna þessara fyrri dóma. Sambandið hefur nóg af löglegum tækifærum til að setja háa tolla og hömlur á bandarískar vörur.

Þannig mun Evrópa halda sig innan ramma alþjóðalaga í viðskiptastríðinu við Bandaríkin og láta þau ein um að leika hlutverk hryðjuverkamannsins úr villta vestrinu. Það breytir því ekki, að Evrópa mun svara Bandaríkjunum. Viðskiptastríðið milli Vesturlanda mun því harðna á næstunni.

Viðskiptalegur yfirgangur Bandaríkjanna gagnvart Evrópu er eðlilegt framhald af yfirgangi þeirra á öðrum sviðum. Bandaríska þingið hefur lengi tregðast við að staðfesta fjölþjóðlega sáttmála og nú hefur forsetaembættið sjálft tekið forustu um að hafna slíkum sáttmálum yfirleitt.

Bandaríkin hafa lýst frati á Stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna. Þau neita að fara eftir Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga, þótt hann taki af öll tvímæli um, hvernig skuli fara með hvers kyns fanga frá Afganistan, þar á meðal þá, sem ekki eru beinlínis einkennisklæddir.

Bandaríkin neita að taka þátt í banni við sölu á jarðsprengjum, sem hafa gert tugþúsundir barna örkumla í þriðja heiminum. Þau hafna fjölþjóðasamstarfi um hert eftirlit með framleiðslu efnavopna. Þau rituðu ekki undir Kyoto-bókunina. Þau hafa unnið leynt og ljóst gegn öllu þessu.

Til viðbótar við yfirgang vegna sinna eigin hagsmuna hafa Bandaríkin tekið að sér að halda hryðjuverkaríkinu Ísrael uppi fjárhagslega og hernaðarlega og gera utanríkisstefnu þess að sinni. Öxullinn milli Bandaríkjanna og Ísraels er núna hinn raunverulega illi öxull heimsins.

Svo náið eru þessi tvö ríki tengd, að ekkert þingmannsefni nær kosningu í Bandaríkjunum, ef það efast opinberlega um, að stuðningurinn við Ísrael sé réttmætur. Þetta er mikilvægasta rótin að einbeittum áhuga múslima á hryðjuverkum í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.

Evrópa þarf að greina sig betur frá þessum öxli Bandaríkjanna og Ísraels, svo að múslimar átti sig betur á, að Evrópa er ekki aðili að ofbeldi öxulsins gegn Palestínumönnum og öðrum þjóðum íslams. Engin ástæða er fyrir Evrópu að taka á sig meðsekt af heljartökum Ísraels á Bandaríkjunum.

Evrópa hefur enga hernaðarlega burði til að hamla gegn ofbeldi Bandaríkjanna í þriðja heiminum. Eigi að síður hefur hún næga efnahagslega og viðskiptalega burði til að láta hart mæta hörðu í tilraunum Bandaríkjanna til að knýja Evrópu til að lúta einbeittri hagsmunagæzlu í viðskiptum.

Klofningur Evrópu og Bandaríkjanna er orðinn raunverulegur og á eftir að magnast. Viðskiptahagsmunir Íslands eru í Evrópu. Verndun þeirra hagsmuna mun ráða pólitískri afstöðu okkar.

Jónas Kristjánsson

FB