Reykvísk stjórnsýsla

Greinar

Meðal helztu vinnureglna í borgarskipulagi Reykjavíkur hafa verið þær þrjár, að ekki skuli fara eftir texta gildandi aðalskipulags, að skipulagið skuli vera smart að sjá úr flugvél, og að ekki skuli leita samráðs við neina þá, sem málið varðar. Þannig voru lagðir í fyrra stígar útivistarfólks.

Á síðbúnum fundi skipulagsins með samtökum íþrótta- og útivistarfólks á Elliðaársvæðinu um síðustu helgi kom fram, að skipulagið fellst á alla gagnrýni málsaðila og lofar bót og betrun. Var svo að skilja, að mistökin í fyrra yrðu rifin upp og verkið unnið að nýju að siðaðra manna hætti.

Í texta gildandi aðalskipulags segir, að reiðstígar skuli vera aðskildir frá hjólastígum og göngu- og hlaupastígum. Þetta eðlilega öryggisákvæði á að draga úr líkum á slysum, er stafa af, að hestar eru ekki vélar, heldur flóttadýr, sem er eðlislægt að vera hræddir við hjól og hlaupandi fólk.

Í Elliðaárdal og upp af honum lagði Reykjavík í fyrra kerfi útivistarstíga kruss og þvers yfir fyrri reiðstíga, af því að slíkar sveigjur líta vel út úr lofti séð. Kerfið var lagt um reiðvegagöng gegnum æfingasvæði hestamanna og sköpunarverkið kórónað með fótboltavelli inni á æfingasvæðinu.

Hvorki göngufólk né hjólafólk hafði beðið um þessa útfærslu, enda hafði það ekki verið spurt ráða. Þegar verkið var hafið og málsaðilar fóru að átta sig á vitleysunni, var strax farið að mótmæla í fjölmiðlum. Síðan var haldinn fjölmennur mót-mælafundur, þar sem yfirvöld áttu engin svör.

Allan tímann héldu borgaryfirvöld því fram, að of seint væri að snúa við, því að framkvæmdir væru í fullum gangi. Til viðbótar var þó lagt í kostnað við margvíslegt klastur. Til dæmis voru virkisveggir reistir í undirgöngum endilöngum og malbik rifið upp, þar sem leiðir mættust.

Nú er hins vegar viðurkennt, að allt verkið í fyrra er ónýtt og klastrið ekki síður. Kostnaður er kominn upp úr öllu valdi, þótt vinna við klastrið sé falin í almennum kostnaði gatnamálastjóra. Nú á eftir að borga kostnað við að rífa vitleysuna og að lokum kostnað við að leggja nýja stíga.

Þegar borgaryfirvöld eru nú seint og um síðir búin að játa, að ekki var heil brú í framkvæmdum síðasta árs við útivistarstíga, vaknar auðvitað sú spurning, hverjir beri ábyrgð á þeim og á tregðu borgaryfirvalda við að hlusta á þá, sem sögðu þeim, að mál þetta væri að komast í óefni.

Hver er staða skipulagsstjóra og gatnamálastjóra Reykjavíkur, þegar forkastanleg vinnubrögð þeirra eru orðin ljós öllum, sem sjá vilja? Hver er staða pólitískt skipaðrar skipulagsnefndar, sem á að hafa eftirlit með embættismönnum borgarinnar á þessu sviði, en lét ekki vekja sig á verðinum?

Til að fullnægja öllu réttlæti er nauðsynlegt að taka fram, að engan greinarmun er hægt að gera á pólitískum meiri- og minnihluta skipulagsnefndar. Menn sváfu jafn værum blundi, hvort sem þeir voru með D eða R í barminum og voru jafn ófáanlegir til að láta vekja sig af værum svefni.

Einnig má spyrja, að hve miklu leyti síðbúnar syndajátningar borgaryfirvalda tengjast siðbótarvilja annars vegar og óþægilegri nálægð borgarstjórnarkosninga hins vegar. Með opinskáum fundi með málsaðilum hafa mótmælaaðgerðir fyrir kosningarnar í maí líklega verið hindraðar.

Á næsta fundi sínum getur skipulagsnefnd staðfest nýju útfærsluna og byrjað að fjármagna hana eða staðfest, að bara sé verið að ýta vanda fram yfir kosningar og lágmarka pólitískt tjón.

Jónas Kristjánsson

FB