Evrópuumræðan er búin

Greinar

Athyglisverðast við niðurstöður nýjustu könnunarinnar á afstöðu íslenzkra kjósenda til Evrópuaðildar er ekki, að allur þorri vill sækja um aðild og meirihluti beinlínis ganga í sambandið og að sá meirihluti nemur þremur af hverjum fimm, sem hafa tekið afstöðu til aðildarinnar.

Fremur er fróðlegast, að þrír af hverjum fjórum kjósendum hafa þegar gert upp hug sinn til Evrópusambandsins og ákveðið fyrir sitt leyti, hvort þeir vilja, að Ísland verði með eða ekki. Þetta sýnir, að umræðan um aðild Íslands að Evrópu er ekki bara hafin, heldur meira eða minna búin.

Allan tímann, sem forsætisráðherra hefur haldið fram, að málið sé ekki til umræðu, hefur það samt verið til umræðu. Fjölmiðlar hafa fjallað rækilega um það og birt hin margvíslegustu sjónarmið. Umræðan hefur streymt fram með vaxandi þunga og náð hámarki í vetur.

Liðin er sú tíð, að áhugamenn um aðild reyndu að selja hugmyndina um, að Ísland prófaði umsókn um aðild til að komast að raun um, hvort aðild væri bitastæð eða ekki. Þjóðin er komin langt fram úr þeirri varfærnu afstöðu. Meirihluti hennar vill hreina aðild fremur en könnunarviðræður.

Umræðan um aðild að Evrópusambandinu er svo langt komin, að ekki er lengur deilt um hana. Þjóðin hefur þegar skipt sér í meirihluta þeirra, sem vilja aðild og engar refjar, og í minnihluta þeirra, sem vilja kanna í aðildarviðræðum, hvaða útkomu sé hægt að fá í sjávarútvegi.

Líklega telur þjóðin réttilega orðið tímabært, að áhyggjur af sjávarútvegi megi ekki lengur ráða ferðinni. Atvinnuvegur, sem er kominn niður í 11% af landsframleiðslu, megi ekki lengur stjórna því, hvort hún fái að njóta annarra ávaxta af aðild að sameinaðri siglingu Evrópu í átt til betra lífs.

Ánægjulegt er, ef þjóðin er búin að átta sig á, að framtíð hennar liggur hvorki í fiski né áli, heldur í þekkingariðnaði. Það er þekkingin, sem hefur undanfarin ár staðið undir hagvexti Íslands eins og annarra auðugra landa. Það er hún, sem mun standa undir auðsæld okkar í náinni framtíð.

Gegnum niðurstöður nýjustu skoðanakönnunarinnar á viðhorfum okkar til Evrópusambandsins skín einmitt vaxandi skilningur fólks á, að þriðja og fjórða kynslóð atvinnuvega þarf sem fljótast að leysa fyrstu og aðra kynslóð þeirra af hólmi. Í þessum skilningi felst lykill framtíðar okkar.

Evrópa er okkar segull. Rætur okkar sjálfra og rætur menningar okkar liggja í Evrópu. Þangað leitum við, þegar við viljum slaka á í fríum okkar. Þar eru kaupendur varnings okkar og þjónustu. Með ári hverju verða Evróputengslin vaxandi þáttur í samskiptum okkar við umheiminn.

Aðrir heimshlutar, þar á meðal Bandaríkin, eru hlutfallslega dvínandi þáttur þessara samskipta. Við getum gamnað okkur við hugmyndir um að sigla ein á báti nyrst í Norður-Atlantshafi, sem eftir lok kalda stríðsins er orðið fremur afskekkt. En köld raunhyggja vísar okkur til Evrópu.

Við höfum þegar þegið ótrúleg gæði frá Evrópusambandinu, sumpart gegn geðþóttahefðum íslenzkrar valdastéttar. Við erum farin að kæra rangláta dóma til Evrópu. Ótal evrópskar reglugerðir hafa þrengt svigrúm til geðþótta í stjórnsýslu okkar, þótt enn megi bæta stöðuna.

Gegn vilja forsætisráðherra hefur umræðan um öll þessi atriði þegar farið fram, mikil að vöxtum. Kjósendur hafa fylgzt vel með henni og beinlínis tekið jákvæða afstöðu til aðildar að Evrópu.

Jónas Kristjánsson

FB