“Eitrað andrúmsloft”

Punktar

Ráðamenn Bandaríkjanna harma, að ríkisstjórn Gerhard Schröders skuli hafa haldið velli í kosningunum í Þýzkalandi um helgina. Condolezza Rice öryggisráðgjafi og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra tala um “eitrað andrúmsloft” í sambúð Bandaríkjanna og Þýzkalands. Sárindin endurspeglast í bandarískum fjölmiðlum, meira að segja í International Herald Tribune, sem oft sér evrópskar hliðar á málum. Í dag eru heilar tvær uppsláttargreinar í blaðinu helgaðar meintum vandræðum Þjóðverja, önnur eftir John Schmid og hin eftir John Vincour. Þar er efnahagur landsins sagður á hverfanda hveli og ríkið sagt hafa einangrazt frá öðrum Evrópuríkjum, sem hvort tveggja hlýtur að teljast fullmikil óskhyggja blaðsins. Schröder gefur hins vegar ekki eftir og segir sjónarmið ríkisstjórnarinnar gegn fyrirhuguðum hernaði í Írak vera hin sömu eftir kosningar og þær voru fyrir kosningar.