Stríðsglæpir Jóns og séra Jóns

Punktar

Samkvæmt grein eftir Lee Dembart í International Herald Tribune í dag er Evrópusambandið að beygja sig fyrir kröfu Bandaríkjanna um, að bandarískir ríkisborgarar séu undanþegnir lögsögu hins nýja Alþjóðlega stríðsglæpadómstóls í Haag. Samkvæmt 98.grein stofnskrár dómstólsins geta ríki samið tvíhliða um að leysa mál hermanna sín í milli án afskipta dómstólsins. Bandaríkin vinna nú að gerð slíkra samninga við undirgefin ríki. Þau vilja þar að auki, að ákvæðið nái ekki bara til hermanna, heldur til allra bandarískra borgara. Þetta er í gamni kallað Kissinger-verndin og á að hindra, að mennirnir að baki bandarískra stríðsglæpa verði sóttir til saka á alþjóðlegum vettvangi. Evrópusambandið hefur verið tregt í taumi, en gefið eftir stig af stigi. Þetta er eitt af mörgum dæmum, að mál eru að renna í þann farveg, að lög og réttur í heiminum nái ekki til Bandaríkjanna.