Evrópa verður vetnisálfa

Punktar

Olía er takmörkuð auðlind. Hinir svartsýnu segja það leiða til sífelldrar hækkunar olíuverðs upp úr árinu 2020, en hinir bjartsýnu segja það verða upp úr 2040. Evrópusambandið, evrópsk olíufélög og evrópskir bílaframleiðendur eru að búa sig undir að skipta í tæka tíð yfir í vetni sem orkugjafa. Á þeim grunni hyggst Evrópa mæta loforðum sínum um aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa. Bandaríkin neituðu hins vegar að gefa slíkt loforð á umhverfisráðstefnunni í Jóhannesarborg í sumar. Þau reyna í þess stað að auka áhrif sín á olíusvæðum heimsins, svo sem í Miðausturlöndum, einkum Írak. Einn tilgangur fyrirhugaðs stríðs á þeim slóðum er að ná betri tökum á olíumarkaðinum. Jeremy Rifkin segir í dag í International Herald Tribune frá gerólíkum aðferðum Evrópu og Bandaríkjanna við að mæta fyrirsjáanlegum olíuskorti í heiminum á allra næstu áratugum.