Karl Marx og George Bush

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune í dag, að varnarmálayfirlýsing George W. Bush Bandaríkjaforseta frá 20. september árið 2002 sé önnur stóra atlagan í veraldarsögunni gegn fjölþjóðasáttinni í Westphalen frá árinu 1648 um fullveldi ríkja. Sú fjölþjóðasátt endurspeglast í nútímanum í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, sem segir, að landamæri séu heilög. Hin atlagan var Kommúnista-ávarið eftir Karl Marx, sem kom út árið 1848. Samkvæmt ávarpinu var réttur öreigaríkisins meiri en réttur einstakra ríkja og mátti því öreigaríkið ráðast á önnur ríki. Þetta hlutverk öreigaríkisins tóku Sovétríkin að sér. Varnarmálayfirlýsing Bush segið það sama, nema hvað það eru Bandaríkin, sem samkvæmt henni eru hafin yfir ríki veraldar og hafin yfir sáttmála milli ríkja. Þau mega því ráðast á önnur ríki með því að gefa fyrst út einfalda og einhliða yfirlýsingu um, að viðkomandi ríki sé á einkalista Bandaríkjanna yfir ríki, sem gætu hugsanlega keppt við þau um völd.