Steinaldarfæði hentar okkur

Punktar

Fólk er veikt, af því að líkaminn er ekki gerður til að þola lífshætti 21. aldar, er menn geta veitt sér allt, sem þeir vilja. Þetta segir Randolph Nesse, prófessor við Michigan-háskóla, einn helzti Darwinisti nútímans. Fjallað var um kenningar hans í BBC á laugardaginn. Líkaminn er að hans sögn gerður til að ganga 20 km á dag í leit að æti, yfirleitt trefjaríku og fitusnauðu. Líkaminn var í góðu samræmi við umhverfi sitt fyrir 10.000 árum. En hann hefur lítið breytzt eftir ytri aðstæðum og er ekki gerður til að verjast freistingum nútímans, allt frá tóbaki og áfengi yfir í fitu og sykur. Þannig blómstra menningarsjúkdómarnir. Samkvæmt þessu má búast við að menn þurfi að hverfa til neyzluvenja eins og þær voru fyrir 10.000 árum, til að minnka umtalsvert hættuna á veikindum. Steinaldarfæði er það, sem hentar líkama okkar.