Hatrið á hnattvæðingunni

Punktar

Hnattvæðing er hötuð um allan þriðja heiminn, af því að helztu stofnanir hennar hafa brugðizt hlutverki sínu. Alþjóðabankinn útvegar lánsfé til ofurframkvæmda á borð stíflur, sem spilla vistkerfi og efnahag þjóða. Hann útvegar lánsfé, sem hann veit að er laumað á bankareikninga spilltra valdhafa, en ætlast samt til, að þrautpíndar þjóðir endurgreiði. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er rekinn á róttækum hagfræðikreddum frá Chicago, sem hafa leitt kreppur yfir Suðaustur-Asíu, Rússland og Suður-Ameríku. Heimsviðskiptastofnunin styður ofurgreiðslur þriðja heims þjóða fyrir vestræn einkaleyfi, einkum amerísk, og kemur um leið í veg fyrir, að ódýrar landbúnaðarvörur þriðja heimsins komist inn á vestræna markaði. Skyldi verða rætt um þessar glæpastofnanir á hnattvæðingarráðstefnu háskólans um helgina?