Getur unnið eða verður að vinna?

Punktar

Bandaríkjastjórn ætlar að heyja hefðbundið stríð, sem hún getur unnið, í stað þess að heyja flókið stríð, sem hún verður að vinna. Það er niðurstaða dálkahöfundarins Tony Judt í New York Times í dag. Yfirvofandi stríð við Írak er rangt stríð á röngum tíma. Í stað þess að safna fylgi almennings í löndum múslima við stríð gegn alþjóðlegum hryðjuverkamönnum er Bandaríkjastjórn að auðvelda hryðjuverkamönnum að njóta skjóls hjá vinveittum almenningi. Enda er augljós tvískinnungur að banna Írak það, sem Ísrael er leyft. Þess vegna mun mannkynið verða að þola meira af Bali og World Trade Center, meðan Bandaríkin gera upp sakir við gamlan skjólstæðing, sem átölulaust notaði efnavopn gegn minnihlutahópum og nágrannaríkjum fyrir tveimur áratugum, þegar hann var ennþá “okkar tíkarsonur” og mátti gera það, sem hann vildi.