Keppinautar fallast í faðma

Punktar

Þegar matvörukeðjurnar berjast um á hæl og hnakka til að ná meiri hluta af markaðinum til sín, taka þær forustu við að lækka vöruverð. Þannig voru fyrst Hagkaup og síðan Bónus á uppvaxtarárum sínum. Þegar keðjurnar hafa hins vegar náð jafnvægi í markaðshlutdeild, hætta þær að stýra verðþróun og fara að fylgja henni eftir. Þær hætta allri ævintýramennsku og keppast um að halda hlutfallslegu verðlagi í samanburði við keppinautana. Áherzla á gróða leysir áherzlu á markaðshlutdeild af hólmi. Keppinautar fallast í faðma. Þannig eru Hagkaup og Bónus orðin að Baugi. Staðan í matvöru er nýlega orðin hin sama og hún hefur frá ómunatíð verið í bönkum og benzíni, flutningum og flugi. Samkeppni er orðin að fáokun, neytendum og þjóðarbúi í óhag. Og bráðum verður þetta svona í fjarskiptunum líka.