Alþjóðadagblað selt

Punktar

Washington Post seldi í gær New York Times helmings hlut sinn í alþjóðlega dagblaðinu >International Herald Tribune, svo að NYT á nú allt hlutafé í því. Samkomulag eigenda hafði stirðnað að undanförnu, WP bauðst til að kaupa NYT út, en var hafnað. NYT beitti hörðu til að ná tökum á IHT, hótaði að setja upp eigin alþjóðaútgáfu og að neita frekari fjármögnun IHT, sem hefur verið rekið með slæmu tapi í tvö s.l. ár. Þetta eru vondar fréttir, þótt NYT sé vandað dagblað. Það er ákaflega hallt undir Ísrael. Sú afstaða mun áreiðanlega leka inn hjá IHT, sem hingað til hefur verið fremur óhlutdrægt í þeim efnum að hætti Washington Post. Hin alþjóðadagblöðin tvö, Wall Street Journal og Financial Times, eru einnig fremur höll undir Ísrael, svo að hér eftir verða vaxandi erfiðleikar á að fá á einfaldan hátt góða innsýn í þann vanda, sem er ein helzta rót hins ótrygga ástands í Miðausturlöndum og aukinna umsvifa alþjóðlegra hryðjuverkamanna.