Margir mismunandi heimar

Punktar

Max Tegmark, stjörnufræðingur við Pennsylvania-háskóla, telur, að til séu að minnsta kosti fjórar tegundir heima, sem sumir hafi annars konar víddir en við þekkjum. Hann telur þetta rökrétta afleiðingu kenningar, sem margir stjörnufræðingar aðhyllast og Alan Guth við Massachusetts-tæknistofnunina setti fram árið 1980 um, að heimurinn væri að þenjast út. Dennis Overby hjá New York Times veltir vöngum yfir ýmsum skrautlegum útfærslum útþenslukenningarinnar, sem fremstu stjörnufræðingar heimsins velta fyrir sér um þessar mundir, svo sem: Eru víddirnar 10 eða 25? Fæðast nýir heimar í svörtu holunum? Rekast heimarnir á í 5. víddinni? Er hádegisverðurinn í rauninni ókeypis? Þetta eru vísindi 21. aldar, segir Martin Rees, stjörnufræðingur við Cambridge-háskóla.