Olía er uppspretta ófriðar

Punktar

Olía er farin að stjórna gangi heimsmálanna og mun gera það í vaxandi mæli á næstu árum að mati George Monbiot, dálkahöfundar hjá Guardian. Hann telur utanríkisstefnu Bandaríkjanna byggjast á sókninni í aðgang að nýjum og nýjum olíulindum í útlöndum. Stríðið við Afganistan leiddi til samstarfs Bandaríkjanna við nýja leppríkið sitt í Afganistan og svokölluð -stan ríki norðan þess um nýtingu olíulinda. Fyrirhugað stríð við Írak mun leiða til annars bandarísks leppríkis, sem býr yfir feiknarlegum olíulindum. Enda eru landflótta stjórnarandstæðingar nú þegar komnir í viðræður við þrjú stærstu olíufélögin í Bandaríkjunum. Eftir Írak má Sádi-Arabía fara að vara sig. “The American Way of Life” krefst ótakmarkaðs aðgangs að ódýru benzíni og mun í náinni framtíð magna ófrið milli Bandaríkjanna annars vegar og afgangsins af heiminum hins vegar.