Bush fékk umboð til vandræða

Punktar

Kosningarnar í Bandaríkjunum treysta stöðu George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þær færa honum óbeint umboð til óbreyttrar stefnu. Fyrir tveimur árum varð hann forseti sem maður friðar og samúðar, maður miðjunnar, jafnvel umhverfisins. Í embætti fór hann hins vegar þveröfuga leið. Hann varð stríðsherra og róttækur hagsmunagæzlumaður þeirra, sem bezt mega sín og harðast rústa umhverfinu. Í stað þess að refsa honum fyrir að svíkja yfirlýsta stefnu sína, hefur bandaríska þjóðin nú fært honum fleiri bandamenn á þingi en áður. Hann getur litið á það sem stuðning við raunverulega stefnu sína, aukna stéttaskiptingu heima fyrir, vaxandi umhverfisspjöll og styrjaldir í útlöndum. Mest er tjón hins vestræna fjölþjóðasamfélags, er hefur byggt á auknu samráði og reglugerðum, sem ríkisstjórn Bush hefur meira eða minna hafnað holt og bolt. Kosningarnar hafa veitt Bush umboð til að verða til vaxandi vandræða í umheiminum.