Friedman fer á kostum

Punktar

Oft skrifar Thomas L. Friedman frábærar greinar í New York Times. Í dag byrjar hann með því að segja frá fagnaðarlátunum í Berlín um daginn, þegar Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti var þar í heimsókn. Ef George W. Bush forseti hefði verið þar, hefði táragas ekki dugað gegn mótmælunum. Friedman ber saman forsetana Clinton, Reagan, Kennedy og Roosevelt annars vegar, bjartsýna menn, sem kunnu að samræma mildi og hörku, og hins vegar George W. Bush og gengið hans, Dick Cheney, Donald Rumsfeld og Condolezza Rice, svartsýnt fólk, sem trúir á hörkuna eina. Hinir fyrrnefndu forsetar gátu fengið Evrópu og raunar umheiminn allan til að fylgja forustu sinni, en það getur síðarnefndi hópurinn alls ekki og mun aldrei geta. Það verða örlög Bush og Cheney, Rumsfeld og Rice að vera hötuð og fyrirlitin. Það er svoleiðis fólk, sem Osama bin Laden vill hafa til að geta ræktað jarðveg hryðjuverka.