Fyrsta glasið ruglar fólk

Punktar

Á fyrsta glasi áfengis byrjar dómgreind og athyglissnerpa að minnka, samkvæmt niðurstöðum samanburðarrannsóknar á hópum, sem innbyrtu mismikið áfengi á 20 mínútum og hópi, sem hélt að hann væri að drekka áfengi á sama tíma, en var með áfengislausan drykk. Niðurstöðurnar frá háskólunum í Amsterdam og Leiden í Hollandi munu birtast í tímaritinu Science, en eru þegar komnar í Washington Post. Þeir, sem ekkert áfengi fengu, gerðu 4,8% mistök, en strax við fyrsta drykkinn hoppuðu mistökin upp í 19,8% og síðan enn hærra, ef áfengismagnið var meira. Þar að auki tók það tilraunardýrin lengri tíma að komast að réttri niðurstöðu eftir að hafa innbyrt áfengi. Það þýðir, að fólk, sem hefur aðeins smakkað það, er viðbragðsseinna í óvæntri atburðarás, t.d. þegar barn hleypur fyrir bílinn. Fólki er hvorki treystandi fyrir bíl né mikilvægum ákvörðunum, þótt það hafi aðeins drukkið eitt rauðvínsglas.