Tyrkland er í Evrópu

Punktar

Giscard d’Estaing, fordómafullur formaður stjórnlaganefndar Evrópusambandsins, gerði sig vanhæfan, þegar hann sagði, að Tyrkland geti ekki orðið aðili að Evrópusambandsins, af því að landið sé ekki í Evrópu, íbúar þess fjölgi sér of mikið og hugsi öðru vísi en Evrópumenn. Saga Tyrklands hefur verið samofin evrópskri sögu í rúmlega fimm aldir. Evrópusambandið lýkur ekki því hlutverki að loka ófriðarsögu álfunnar fyrr en Tyrkland er komið inn. Tyrkland er lýðræðisríki, sem er ekki rekið á trúarlegum grunni og hefur eflt mannréttindi upp á síðkastið. Evrópu er fengur í aðild fjölmenns ríkis, sem hefur þjóðskipulag á evrópskum meiði. Ráðamönnum Evrópu ber að haga sér í samræmi við það. Giscard á umsvifalaust að fá rauða spjaldið.