Aukaefni í landbúnaði

Punktar

Rannsókn á vegum ríkisháskólans í Missouri í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós, að um miðbik ríkisins er sæði karlmanna mun lakara í sveitum en borgum, samkvæmt Associated Press í gær. Mælt í fjölda á rúmmálseiningu er það um 60 milljónir á millilítra í sveitum, en um 100 milljónir í borgum. Að óreyndu er þessi munur talinn stafa af umgengi sveitafólks við aukaefni, sem notuð eru í landbúnaði, tilbúinn áburð, skordýraeitur og illgresiseyði. Niðurstaðan er talin munu hvetja til aukinnar lífrænnar ræktunar, því að hún hafnar þessum aukaefnum. Nokkrir garðyrkjubændur á Íslandi stunda lífræna ræktun samkvæmt alþjóðlegum stöðlum óháðra vottunarfyrirtækja. Íslenzku bændasamtökin hafa hins vegar horn í síðu hennar. Þau vilja heldur efla svokallaða vistvæna ræktun í samræmi við heimasmíðaða staðla í Bændahöllinni, sem líta mildari augum á aukaefni á borð við tilbúinn áburð.