Með dauða hönd á hrossum

Punktar

Hin dauða hönd ríkisvaldsins er farin að láta til sín taka í hrossum eins og öðrum búfénaði. Í tíð Guðna Ágústssonar ráðherra hafa verið stofnaðir hrossasjóðir, sem sérhæfa sig í að kasta fé í grýtta jörð, Átak heitir einn og Hestamiðstöðin annar. Uppskera þeirra er lítil sem engin. Fyrir tugmilljónir var settur upp verðlausi fréttavefurinn eidfaxi.is, sem árlega tapar milljónum. Í framhaldi af því eru sjóðirnir þessa dagana að bjarga móðurfélaginu Eiðfaxa og tímaritum þess frá yfirvofandi gjaldþroti. Faðmlög ríkisvaldsins af þessu tagi draga allan mátt úr gæludýrunum, draga úr líkum á einkaframtaki og eru ávísun á frekari vandræði. Þannig hefur það áratugum saman verið í landbúnaði, allt frá kindum yfir í minka. Og þannig mun Guðni skilja við hrossin, – á framfæri hins opinbera.