Togað til í túlkun

Punktar

Í svart-hvítum kaldastríðsheimi Björns Bjarnasonar er hvergi rúm fyrir efasemdir. Það gerir erlendar fréttaskýringar hans gagnslitlar á köflum. Niðurstaða Íraksmálsins í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna var ekki sigur fyrir Bandaríkin eins og Björn heldur fram. Þar varð málamiðlun milli sjónarmiða. Frakkar og Rússar fengu því framgengt, að ekki yrði ráðist á Írak fyrr en eftir nýja umræðu og nýja niðurstöðu í öryggisráðinu um, hvort Írak hafi rofið skilmála fyrri niðurstöðunnar. Það þýðir hvorki fyrir Bandaríkin né Björn að toga þetta til í túlkun. Sjáið t.d. grein eftir Colum Lynch í Washington Post í gær. Hins vegar má líta á þetta sem hálfan sigur Bandaríkjanna, því að líklegt má telja, að Saddam Hussein reyni að bregða fæti fyrir eftirlitið, svo að öryggisráðið muni um síðir samþykkja hina langþráðu árás Bandaríkjanna. Um það fjallar grein eftir Hugo Young í Guardian í dag.