Aukið ofbeldi Ísraels

Punktar

Iain Hook, brezkur yfirmaður við hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, var í gær skotinn til bana með kúlu af því tagi, sem hermenn Ísraels nota. Síðan töfðu hermenn Ísraels sjúkrabíl á leiðinni til hans. Bretinn lézt síðan í sjúkrabílnum á leiðinni í sjúkrahús. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og brezka ríkisstjórnin mótmæltu þessu í gærkvöldi og heimtuðu rækilega rannsókn. Ofbeldi Ísraelshers fer nú ört vaxandi í skjóli Bandaríkjanna og er farið að ná til erlendra hjálparmanna og blaðamanna. Um daginn sátu hermenn Ísraels fyrir 15 blaðamönnum og réðust á þá með barsmíðum. Tryllingur þessa ofbeldisríkis nýtur eindregins stuðnings Bandaríkjanna og er ein helzta undirrót örvæntingarfulls haturs múslima á Vesturlöndum. Bandaríkin gætu stöðvað ofbeldið með því að skrúfa fyrir peningastrauminn til Ísraels. Í staðinn eru þau að undirbúa árás á Írak, m.a. með stuðningi Íslands.