Samstarf útlagaríkja

Punktar

Í New York Times og á forsíðu International Herald Tribune í dag er grein eftir David E. Sanger um samstarf Pakistans og Norður-Kóreu um þróun kjarnavopna. Þar kemur fram, að bandaríska leyniþjónustan CIA náði í júlí sl. myndum af Lockheed C-130 flugvél frá pakistanska hernum á flugvelli í Norður-Kóreu, þar sem hlutum í langdrægar eldflaugar var hlaðið í hana. Samkvæmt Sanger hjálpa þessi tvö útlagaríki hvort öðru við að þróa atómvopn, sem Pakistan notar til að ögra nágrannaríkinu Indlandi, þar sem pakistanski herinn stýrir hópum hryðjuverkamanna. Einræðisherrann Pervez Musharraf stýrði raunar hryðjuverkunum í Kasmír áður en hann hrifsaði völdin í Pakistan. Í skjóli hans hefur Pakistan orðið að heimsmiðstöð Al-Kaída og hryðjuverka gegn Vesturlöndum. Jafnframt er Musharraf ein helzti skjólstæðingur Bandaríkjamanna í heiminum og fékk þaðan ofangreinda Lockheed C-130 herflugvél til að berjast gegn hryðjuverkum. Það er ekki allt sem sýnist í hræsni heimsmálanna.