Bush er ekki bjáni

Punktar

Aðalumræðuefnið vestan hafs þessa dagana er, að Françoise Ducros, blaðafulltrúi Jean Chrétien, forsætisráðherra Kanada, kallaði George Bush Bandaríkjaforseta bjána í áheyrn blaðamanna á fundi Atlantshafsbandalagsins í Prag. En Bush er enginn bjáni, þótt hann eigi erfitt með að tjá sig. Þessi róttæki athafnamaður á hægri kanti stjórnmálanna tók bandarísku þjóðina í nefið í kosningunum í haust. Í stað hefðbundinna ríkisstjórna í þágu miðstéttanna er komin ríkisstjórn í þágu auðmanna. Dæmi um það er heilbrigðis- og tryggingakerfi Bandaríkjanna, sem Bush er markvisst að eyðileggja. Venjulegt fólk er að hætta að hafa efni á heilbrigðisþjónustu í ríkasta landi heims. John M. Broder, Robert Pear, Milt Freudenheim og Daniel Altman skrifa langa grein um það í >New York Times í dag. Bush er í rauninni snillingur, því að Bandaríkjamenn hrópa húrra, þegar hann sparkar í þá.