Ferðaheftur Kissinger

Punktar

Einu sinni var Henry Kissinger valdamesti maður heims, framlengdi Víetnam-stríðið um nokkur ár, stóð fyrir blóðugu valdaráni í Chile og æsti upp illar hvatir Nixons Bandaríkjaforseta. Nú þarf hann lögfræðiaðstoð til að ákveða, til hvaða landa hann getur farið. Í fyrra bjargaði hann sér á flótta frá París, þegar honum var afhent stefna á Ritz-hóteli. Glæpir hans gegn mannkyni voru teknir upp af brezkum dómstóli fyrr á þessu ári. Hann er eftirlýstur í Chile og Argentínu og hann varð að hætta við ferð til Brazilíu undir lok síðasta árs. Nýlega opnuð stjórnarskjöl í Washington sýna, að endurminningar hans eru fullar af lygum. Því hæfir kjaftur skel, þegar George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur falið honum að rannsaka, hvernig leyniþjónustum ríkisins mistókst að hindra hryðjuverkin 11. september í fyrra. Frá þessu segja Maureen Dowd í New York Times og Christopher Hitchens í vefritinu Slate.