Heimsblöðin við hendina

Punktar

Frábær er tæknin. Hægt að fá heimsins beztu dagblöð ókeypis með morgunkaffinu. Ár og dagur er síðan við hættum að þurfa að sætta okkur við sérstæðan flutning Morgunblaðsins á erlendum fréttum. Nú fáum við þær beint í æð með rækilegum fréttaskýringum. Við getum flett Le Monde frá Frakklandi, Frankfurter Allgemeine frá Þýzkalandi, Guardian frá Bretlandi, New York Times og Washington Post frá Bandaríkjunum og loks International Herald Tribune, öllum eldsnemma að morgni. Hver morgunn í lífi með líkamlega og andlega afskekktri þjóð er betri en á svítunni á hótel Plaza Athénée í París, nema hvað það kostar ekkert að búa heima hjá sér. Að vísu þarf ég að laga espresso sjálfur.