Betra en læknisfræðin

Punktar

Samkvæmt greinaflokki í Newsweek hefur helmingur Bandaríkjamanna gefist upp á hefðbundinni læknisfræði og leitar sér hjálpar í margs konar lækningum, sem hingað til hafa verið kallaðar hjálækningar, allt frá nálastungum yfir í smáskammtalækningar. Til að ná aftur í viðskiptavinina eru hinar hefðbundnu læknastofnanir vestra komnir á fulla ferð við að kanna, hvort ekki sé eitthvað til í þúsund ára gömlum fræðum frá fjarlægum löndum á borð við Kína. Í einni greininni, um hjartasjúkdóma, kemur fram, að ef til vill séu hvorki vestrænu fræðin né svokölluðu hjáfræðin bezt. Þar segir, að harðfitusnauð neyzla á grófu korni, grænmeti, ávöxtum og fiski minnki áhættu á hjartaslagi um 20-80% og samtals þriggja stunda göngutúrar á viku minnki áhættuna á hjartaslagi um 30-40%. Erum við ekki stundum að fara langt yfir skammt í dýrum lækningum, hefðbundnum og óhefðbundnum?