Palli er einn í heiminum

Punktar

Á fjölþjóðarþinginu í Bangkok um fjölskylduáætlanir standa Bandaríkin alein þessa daga í andstöðu við fóstureyðingar. Því hefur stöðvast vinna við útfærslu samþykkta alþjóðaþingsins í Kaíró árið 1994 um fjölskylduáætlanir. Bandaríkin hóta að falla frá þeim samþykktum eins og tugum annarra samþykkta alþjóðasamfélagsins. Þau hafa fryst þriggja milljarða króna framlag til Íbúasjóðs Sameinuðu þjóðanna af ótta við, að það stuðli að fóstureyðingum í þriðja heiminum. Þau hafa ráðist hart gegn tillögu Hollands um aukna kynlífsfræðslu unglinga og aukna notkun á verjum. Allur tími þingsins í Bangkok hefur farið í þras um sérstöðu Bandaríkjanna og því hefur engin málefnavinna getað hafizt enn. Frá þessu segir James Dao í New York Times. Velkomin á framhaldsþáttinn: Palli er einn í heiminum, þátt nr. 999.