Með myndavél í maganum

Punktar

Komin er á markað einnota örmyndavél, M2A, á stærð við stóra töflu af fjölvítamíni, notuð til sjúkdómsgreininga. Hún er gleypt með vatni eins og hvert annað lyf, ferðast í átta tíma niður meltingarveginn og tekur tvær myndir á sekúndu. Notkunin kostar tæpar 90.000 krónur í hverju tilviki. Myndavélin sjálf kostar núna 40.000 krónur stykkið og mun lækka í verði, þegar fjöldaframleiðsla hefst. Margs konar örhlutir eru að ryðja sér til rúms í læknisfræði, svo sem til að leiðrétta hjartslátt, dæla insúlíni og til að leysa upp töflur á réttu andartaki. Í vændum eru örtæki sem leyfa sjónskertum og jafnvel blindum að sjá. Frá þessu segir Rob Stein í Washington Post í dag.