Nýnorskt stýrikerfi

Punktar

Microsoft vildi ekki þýða Windows á sjaldgæfa nýnorsku fremur en álíka sjaldgæfa íslenzku. En Norðmenn voru harðari af sér en Íslendingar. Skólarnir þar tóku sig saman um að hóta að hætta að nota hugbúnað frá Microsoft, ef stýrikerfið yrði ekki þýtt á nýnorsku, enda eru betri stýrikerfi til. Einokunarstofnunin sá fram á mikinn tekjumissi og gafst upp fyrir samheldni Norðmanna. Frá þessu sagði BBC í gær. Þegar Björn Bjarnason var menntaráðherra, gafst hann hins vegar upp og samþykkti, að íslenzka ríkið borgaði fyrir þýðingu Windows á íslenzku. Enginn hefur fetað slóð hinnar undirgefnu þjóðar og hins undirgefna ráðherra, en ýmsir minnihlutahópar hafa áhuga á norsku leiðinni, þar á meðal Katalúnar á Spáni.